Eyðum biðlistum með nýjum leiðum

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Það er löngu orðið ljóst að meirihlutanum í borgarstjórn tekst hvorki að stytta, né eyða biðlistum inn á leikskóla og frístundaheimili. Á hverju hausti fáum við fréttir af því hvernig biðlistar eftir leikskólaplássi lengjast, auk þess sem ekki fái öll börn inni á frístundaheimilum. Þetta ástand skapar vanda sem velt er yfir á foreldra. Þau neyðast þá til að grípa til annarra  ráðstafana, leita til vina og vandamanna eða jafnvel hætta fyrr á daginn í vinnunni. Frístundaheimili grunnskólanna eru hluti af skólastarfinu og því ætti að vera tryggt að öll börn njóti þjónustu þeirra strax og skólar hefjast á haustin í stað þess að þurfa að bíða í tvo til þrjá mánuði eftir plássi.

Í stað þess að takast á við þetta árstíðarbundna ófremdarástand með varanlegum lausnum, láta borgaryfirvöld sér nægja að afsaka sig með þeirri síbylju að um manneklu sé að ræða og að tíma taki að ráða í stöður frístundaheimila.

Við sjálfstæðismenn í borgarstjórn höfum marg oft bent á leiðir til að leysa þennan vanda, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta, en því miður talað fyrir daufum eyrum. Við höfum bent á að með því að gera störfin á frístundaheimilum að heilsársstörfum en ekki hlutastörfum væri til þess fallið að fleiri hefðu áhuga á að sinna þeim. Þetta mætti leysa  t.d. með samstarfi við leikskólana, þar sem líka er mannekla, þannig að starfsmennirnir störfuðu þar fyrir hádegi og eftir hádegi á frístundaheimilunum. Þá höfum við einnig bent á að hægt væri að fara í samstarf við íþróttafélögin í hverfunum og aðra aðila sem sinna tómstunda- og æskulýðsmálum.Slíkir aðilar gætu hæglega boðið upp á ýmiss konar spennandi námskeið inn á frístundaheimilunum. Auk þess mætti fara í samstarf við Mennta- og vísindasvið Háskóla Íslands um að nemar í tómstunda- og félagsfræðum væru í starfsnámi á frístundaheimilunum tiltekinn hluta náms síns.

Allar þessar leiðir myndu draga úr manneklunni og auka þannig líkur á að tryggja öllum börnum pláss á frístundaheimilum við upphaf skólaársins. Það er ekki hægt að bjóða foreldrum upp á að þurfa að bíða upp á von og óvön, á hverju hausti, hvenær börn þeirra komist að á frístundaheimilum. Það er augljóst að kerfið hefur brugðist og því þarf að breyta en til þess þarf metnað til að gera betur og vilja til að fara nýjar leiðir til að leysa vandann.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 15. október 2021.