Nýtum tækifærin í orkumálum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Orku­mál munu skipa veg­leg­an sess í stjórn­mál­un­um næstu árin. Fyr­ir ligg­ur að raf­orku­kerfi lands­ins er nán­ast full­nýtt á sama tíma og við stefn­um að um­fangs­mikl­um orku­skipt­um á næstu ára­tug­um. Mark­mið stjórn­valda er að Ísland verði kol­efn­is­hlut­laust eft­ir um 20 ár og að 10 árum síðar – um miðja öld­ina – verði notk­un jarðefna­eldsneyt­is hætt. Þess­um mark­miðum verður ekki náð nema með auk­inni nýt­ingu end­ur­nýj­an­legra orku­auðlinda lands­ins. Þar er einkum um að ræða fall­vötn­in og jarðhit­ann en lík­legt er að vindorka bæt­ist einnig við sem þriðja stoð orku­bú­skap­ar­ins.

Sér­fræðing­ar eru sam­mála um að mik­il­væg­asta verk­efni þjóða heims gegn lofts­lags­breyt­ing­um – lofts­lags­vánni sem svo er nefnd – fel­ist í því að hverfa frá notk­un jarðefna­eldsneyt­is og nýta þess í stað end­ur­nýj­an­lega orku­gjafa. Þetta ger­ist ekki með öðrum hætti en þeim að nátt­úru­öfl­in verði beisluð og nýtt í mun meiri mæli en nú er. Þar erum við í ákjós­an­legri stöðu í sam­an­b­urði við flest­ar aðrar þjóðir vegna þeirr­ar stefnu um nýt­ingu jarðhita til hús­hit­un­ar og orku fall­vatn­anna til fram­leiðslu raf­magns sem fylgt hef­ur verið á und­an­gengn­um ára­tug­um.

Til þess að ná mark­miðum okk­ar um orku­skipti þurf­um við að ráðast í frek­ari virkj­un fall­vatna og jarðhit­ans auk vindork­unn­ar. Sam­hliða því að ein­falda og auðvelda alla um­sókn­ar­ferla ligg­ur verk­efnið í því að fella ork­u­nýt­ing­una að al­mennri stefnu­mörk­un okk­ar í um­hverf­is­mál­um; finna heppi­legt jafn­vægi á milli stefnu um nýt­ingu nátt­úru­auðlinda ann­ars veg­ar og vernd­ar­sjón­ar­miða hins veg­ar. Ekki verður bæði haldið og sleppt í þeim efn­um. Við búum svo vel að þegar eru fyr­ir hendi mikl­ir mögu­leik­ar á orku­öfl­un í land­inu án þess að eyðileggja þurfi þær dýr­mætu auðlind­ir sem við eig­um í nátt­úru­feg­urð lands­ins. Þau verðmæti eru eitt helsta aðdrátt­ar­afl ferðamanna sem hingað koma. Þetta tvennt get­ur vel farið sam­an ef rétt er haldið á mál­um.

Lofts­lags­ráðstefna Sam­einuðu þjóðanna hefst í Glasgow í Skotlandi í lok mánaðar­ins. Ákallið um græna orku og frá­hvarf frá jarðefna­eldsneyti mun vænt­an­lega setja mark sitt á umræður ráðstefnu­gesta. Sú stefna kall­ar á mikið rask á nú­ver­andi orku­öfl­un heims­ins, enda er það óhjá­kvæmi­legt. Vand­inn verður ekki leyst­ur nema á löng­um tíma og ekki nema með því að nýta nátt­úr­una með skil­virk­um en um leið sjálf­bær­um hætti líkt og við Íslend­ing­ar höf­um gert. Þá er átt við vatns­aflið og jarðvarmann en einnig sól­ar­orku, vindorku og jafn­vel kjarn­ork­una. Við Íslend­ing­ar get­um ekki staðið hjá eða skilað auðu gagn­vart þessu stóra verk­efni sem þjóðir heims standa frammi fyr­ir. Tæki­fær­in eru líka fyr­ir hendi, bæði til að fram­leiða orku, minnka los­un gróður­húsaloft­teg­unda og efla tækniþróun í land­inu. Okk­ur ber að nýta þau tæki­færi.

Morgunblaðið, 14. október 2021.