Fjárfest í fólki og hugmyndum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Við lif­um á tím­um stór­kost­legra fram­fara og tækninýj­unga sem í flest­um til­vik­um eru til þess falln­ar að bæta og ein­falda líf okk­ar. Þær færa okk­ur nýj­ar leiðir til að eiga viðskipti, ferðast og eiga sam­skipti, stunda nám, vinnu og þannig mætti áfram telja. Ekk­ert af þessu varð þó til að sjálfu sér. Til þess þurfti hug­mynda­ríkt fólk sem var til­búið til að taka áhættu til að sjá hug­mynd­ir sín­ar verða að veru­leika og ekki síður fjár­sterka aðila sem voru til­bún­ir að fjár­festa í fólki og hug­mynd­um.

Lengi vel reynd­ist það stofn­end­um Spotify erfitt að finna fjár­magn til vaxt­ar þar sem fáir fjár­fest­ar vildu snerta á sænska frum­kvöðlafyr­ir­tæk­inu. Það var ekki fyrr en efnaður fjár­fest­ir frá Hong Kong fjár­festi í fé­lag­inu sem hjól­in byrjuðu að snú­ast. Svipaða sögu má segja af Google sem ólíkt Spotify átti fjöl­marga keppi­nauta. Flest­ir fjár­fest­ar töldu að þetta yrði bara enn ein leit­ar­vél­in á net­inu. Til eru marg­ar svona sög­ur. Þegar stofn­andi At­ari, sem var frum­kvöðull í fram­leiðslu leikja­tölva, falaðist eft­ir fjár­magni var hon­um sagt að það væri „heimsku­leg hug­mynd“ að halda að fólk vildi spila tölvu­leiki á sjón­varps­skjá. Fyr­ir­tæki á borð við Twitter, YouTu­be, Airbnb og Uber þurftu öll að hafa mikið fyr­ir því að fá fjár­festa í lið með sér á upp­hafs­dög­um fyr­ir­tækj­anna enda voru hug­mynd­ir stofn­enda þeirra bylt­ing­ar­kennd­ar og til þess falln­ar að ýta við rót­grón­um og stöðnuðum mörkuðum eða skapa nýj­ar neyslu­venj­ur sem eng­inn hafði séð fyr­ir sér að yrðu að veru­leika.

Við mun­um áfram verða vitni að hvers kyns fram­förum og tækninýj­ung­um. Bíla-, skipa- og flug­véla­fram­leiðend­ur eru að þróa um­hverf­i­s­vænni far­ar­tæki, mat­væla­fram­leiðend­ur munu finna leiðir til að nýta afurðir bet­ur og minnka mat­ar­sóun og við mun­um sjá frek­ari nýj­ung­ar í tölv­um okk­ar og sím­um, sem munu opna leiðina að ein­hverju sem eng­um okk­ar hef­ur enn dottið í hug. Þetta er ekki tæm­andi upp­taln­ing.

Til að stuðla að frek­ari fram­förum þurf­um við hug­mynda­ríkt fólk, en það fólk þarf um leið á því að halda að skött­um og reglu­gerðum af hálfu hins op­in­bera sé stillt í hóf og að til staðar séu þannig fjár­mun­ir í hag­kerf­inu að eig­end­ur þeirra séu til­bún­ir til að fjár­festa í nýj­um hug­mynd­um. Sum­ir telja að rétt sé að hækka skatta og láta ríkið í kjöl­farið styðja við ný­sköp­un með fjár­fram­lagi eða styrkj­um. Rík­is­valdið get­ur gert margt til að hvetja til ný­sköp­un­ar og þró­un­ar en ætla má að þau sem áður hafa búið til hagnað séu bet­ur til þess fall­in að fjár­festa í nýj­um hug­mynd­um og at­vinnu­tæki­fær­um held­ur en stjórn­mála­menn. Þess vegna verður að leggja áherslu á öfl­ugt at­vinnu­líf, því það skap­ar for­send­ur fyr­ir fjár­fest­ing­um í nýj­um hug­mynd­um sem bæta líf okk­ar allra.

Morgunblaðið, 4. okt. 2021.