Aldrei hærra hlutfall kvenna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins

Sjö konur sitja nú í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að afloknum Alþingiskosningum eða 44% af 16 manna þingflokki. Aldrei fyrr hefur hlutfall kvenna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins verið jafn hátt.

Hæst var hlutfallið áður eftir þingkosningar 2007 þegar 9 konur sátu í 25 manna þingflokki Sjálfstæðisflokksins eða 36%. Áður hafði það verið 35% árið 2001 þegar Sigríður Ingvarsdóttir tók sæti á Alþingi í stað Hjálmars Jónssonar sem lét af þingmennsku en þá voru einnig 9 konur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem þá taldi 26 þingmenn.

Þær konur sem sitja nú í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru; Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, Hildur Sverrisdóttir fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður, Diljá Mist Einarsdóttir fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður, Bryndís Haraldsdóttir fyrir Suðvesturkjördæmi og Berglind Ósk Guðmundsdóttir fyrir Norðausturkjördæmi.