Sterk rödd meðal þjóða

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

Það líður varla sá dag­ur að Sam­einuðu þjóðirn­ar rati ekki í frétt­ir og þá oft­ast í tengsl­um við stærstu áskor­an­ir sam­tím­ans: heims­far­ald­ur­inn, hraðfara lofts­lags­breyt­ing­ar og hrylli­leg átök og ör­birgð. Sam­starf sem spratt upp úr hörm­ung­um tveggja styrj­alda og hef­ur síðastliðin 76 ár verið mik­il­væg­asti vett­vang­ur starfs í þágu friðar, mann­rétt­inda og framþró­un­ar. All­ar þjóðir, stór­ar sem smá­ar, hafa notið góðs af sam­starf­inu sem snert­ir nær all­ar hliðar til­ver­unn­ar: rétt­indi og skyld­ur ríkja, mann­rétt­indi, um­hverf­is­vernd, af­vopn­un, orku­mál og stjórn­ar­far svo fátt eitt sé nefnt. Nú eru bráðum liðin 75 ár frá því að Ísland gerðist aðild­ar­ríki, 19. nóv­em­ber 1946. Starf Sam­einuðu þjóðanna hef­ur senni­lega aldrei verið eins brýnt og ein­mitt núna, enda viðfangs­efn­in ærin.

Ísland hef­ur frá upp­hafi verið öfl­ug­ur mál­svari alþjóðalaga, sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar auðlinda en síðast en ekki síst mann­rétt­inda og jafn­rétt­is. Ég hef sem ut­an­rík­is- og þró­un­ar­sam­vinnuráðherra aukið þátt­töku í starfi Sam­einuðu þjóðanna. Þrótt­mik­il fram­ganga Íslands í mann­rétt­indaráðinu und­ir­strik­ar þá staðreynd. Við höf­um á síðustu árum eflt sam­starf við lyk­il­stofn­an­ir og sjóði Sam­einuðu þjóðanna sem m.a. vinna að mennt­un og vel­ferð barna, kynja­jafn­rétti, mæðravernd og kyn­fræðslu. Það er breiður stuðning­ur við þetta mik­il­væga starf meðal Íslend­inga eins og kann­an­ir hafa ít­rekað staðfest og öfl­ugt starf lands­fé­laga Sam­einuðu þjóðanna sýn­ir.

Nú stend­ur yfir 76. alls­herj­arþing Sam­einuðu þjóðanna og er kast­ljós­inu eðli­lega beint að stóru mál­un­um á borð við heims­far­ald­ur­inn, aðgerðir í lofts­lags­mál­um en síðast en ekki síst hvernig við get­um aukið traust og dregið úr spennu í alþjóðasam­skipt­um. Áhersl­ur Íslands eru skýr­ar. Við mun­um til dæm­is áfram beita okk­ur fyr­ir jafn­ari dreif­ingu bólu­efna og höf­um nú þegar lagt til um­tals­verða fjár­muni í það starf. Sér­stak­lega þarf að huga að því að upp­bygg­ing og þróun í kjöl­far far­ald­urs­ins stuðli að auk­inni vel­sæld og sjálf­bærni í anda heims­mark­miða Sam­einuðu þjóðanna.

Öll ríki þurfa að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda, standa við Par­ís­ar­sam­komu­lagið og auka metnað í lofts­lags­mál­um. Á sama tíma þarf að styðja tekju­lægri ríki til að þróa lausn­ir í lofts­lags­mál­um. Þar hef ég lagt sér­staka áherslu á að miðla af sérþekk­ingu Íslands í orku­mál­um og samþætt­ingu jafn­rétt­is­mála m.a. með því að efla þátt­töku ís­lenskra fyr­ir­tækja og fé­laga­sam­taka í þró­un­ar­sam­vinnu­verk­efn­um sem snúa að lofts­lags­mál­um.

Það dylst eng­um að tölu­verðar hrær­ing­ar hafa verið að eiga sér stað í alþjóðastjórn­mál­um, sem end­ur­spegla breytta heims­mynd og valda­hlut­föll. Ísland hef­ur, ásamt helstu sam­starfs­ríkj­um, beitt sér gagn­vart þeim sem leit­ast við að veikja eða end­ur­skil­greina alþjóðalög, mann­rétt­indi eða önn­ur grund­vall­ar­viðmið, sem hafa reynst okk­ur öll­um vel.

Virk þátt­taka í starfi Sam­einuðu þjóðanna er og verður einn af horn­stein­um ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og við ætt­um að nota 75 ára af­mælið, 19. nóv­em­ber nk., til að ræða hvernig við vilj­um sjá Ísland leggja sitt af mörk­um til að Sam­einuðu þjóðirn­ar geti sinnt sínu mik­il­væga hlut­verki til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september 2021.