Landsátak í farsímaþjónustu á vegum

Haraldur Benediktsson alþingismaður:

Mjög víða er skort­ur á farsíma­sam­bandi á veg­um lands­ins. Marg­ir veg­kafl­ar eru ým­ist al­veg án eða með tak­markað farsímaþjón­ustu. Sú staða er ólíðandi til lengd­ar þar sem veg­far­end­ur og viðbragðsaðilar treysta í sí­fellt meiri mæli á farsíma­sam­band. Vissu­lega hafa markaðsaðilar byggt upp farsíma- og far­net­s­kerfi á liðnum árum með eða án stuðnings frá rík­inu, sem ná til stærsta hluta vega­kerf­is­ins. Sú upp­bygg­ing og þjón­usta er í raun aðdá­un­ar­verð á svo strjál­býlu, fjöll­óttu og vogskornu landi. Við upp­lif­um flest sem erum á ferðinni hve kerfið er göt­ótt. Það er auðvitað óviðun­andi. Einu viðbrögðin sem ég tel boðleg, sé full­reynt að ná betri ár­angri hratt og vel í gegn­um reglu­verkið, er að stjórn­völd láti sig málið varða með bein­um og skipu­lögðum hætti um land allt.

Í ný­legu sam­ráðsskjali Fjar­skipta­stofu er að finna metnaðarfull­ar hug­mynd­ir að upp­bygg­ingu á slit­lausu far­neti gagn­vart helstu stofn­veg­um og öðrum til­tekn­um veg­um um landið. Einn val­kost­ur fyr­ir stofn­un­ina væri að gera þá upp­bygg­ingu að skil­yrði í tengsl­um við lang­tíma­út­hlut­un á tíðni­heim­ild­um til farsíma­fyr­ir­tækj­anna sem fram fer á næstu miss­er­um. Eins vel og það hljóm­ar, þá tel ég það ekki ásætt­an­leg­an fram­kvæmda­tíma í slíkri upp­bygg­ingu og ekki síður hvað eigi að gera til að bæta úr þjón­ustu­leysi á öðrum „mik­il­væg­um“ veg­um á lands­byggðinni svo sem fjöl­mörg­um tengi­veg­um. Þar verður póli­tík­in að láta sig varða, hve hratt og hve mik­il út­breiðsla er ásætt­an­leg.

Stjórn­völd og markaðsaðilar geta vel unnið sam­an að því að koma farsíma- og far­nets­sam­bandi á veg­um lands­ins í betra horf til framtíðar. En er ekki að verða full­reynt að með nú­ver­andi aðferð mun þetta ekki nást? Ein leið væri að fela Fjar­skipta­sjóði að greina viðfangs­efnið í sam­vinnu við aðra hags­munaaðila og fjár­magna a.m.k. hluta upp­bygg­ing­ar gagn­vart veg­um sem eig­in markaðsáform fjar­skipta­fyr­ir­tækj­anna og úrræði Fjar­skipta­stofu munu ekki ná til. Þannig væri hægt að ná utan um allt verk­efnið.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur á liðnum árum stuðlað far­sæl­lega að ljós­leiðara­væðingu og jarðstrengja­væðingu alls dreif­býl­is. Sú upp­bygg­ing er kom­in vel á veg og mun nýt­ast víða til að tengja nýja farsímaaðstöðu gagn­vart veg­um við veituraf­magn og fjar­skipta­kerfi hag­kvæm­ar en ella. Þörf er á landsátaki í farsíma- og far­netþjón­ustu gagn­vart vega­kerfi lands­ins. Hæg­lega má nálg­ast það verk­efni frá nokkr­um hliðum sam­tím­is í mis­mun­andi sam­spili fyr­ir­tækja og op­in­berra aðila ef vilj­inn er fyr­ir hendi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september 2021.