Óvissuferð? Já, en þó ekki alveg

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Skoðanakann­an­ir geta verið ágæt vís­bend­ing um fylgi stjórn­mála­flokka. Á grunni þeirra er hægt að teikna upp mynd af þeim mögu­leik­um sem fyr­ir hendi eru við mynd­un rík­is­stjórn­ar að lokn­um kosn­ing­um. Allt með þeim fyr­ir­vör­um að skoðanakann­an­ir eru ekki niðurstaða kosn­inga.

Fyr­ir­sögn á forsíðu Morg­un­blaðsins síðasta laug­ar­dag – viku fyr­ir kosn­ing­ar – var af­ger­andi: „Vinstri sveifla þegar vika er eft­ir“. Að baki fyr­ir­sögn­inni var skoðana­könn­un MMR og á grunni henn­ar og tveggja síðustu kann­ana upp­lýsti Morg­un­blaðið í upp­hafi vik­unn­ar að eng­inn mögu­leiki væri á mynd­un rík­is­stjórn­ar þriggja flokka, hvað þá tveggja. Töl­fræðilega eru sjö 4-flokka rík­is­stjórn­ir mögu­leg­ar og átta 5-flokka stjórn­ir, flest­ar yrðu á veik­um grunni en marg­ar eru póli­tískt úti­lokaðar.

En þótt töl­fræði hugs­an­legra rík­is­stjórna sé frem­ur í ætt við sam­kvæm­is­leik í aðdrag­anda kosn­inga en raun­veru­leika stjórn­mál­anna, gef­ur hún ágæta vís­bend­ingu um þá val­kosti sem kjós­end­ur standa frammi fyr­ir: Fjöl­flokka vinstri stjórn eða rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokk­inn sem kjöl­festu.

Rúss­íbanareið

Að þessu leyti er valið skýrt á kjör­dag. Sjálf­stæðis­flokk­ur eða fimm flokka vinstri stjórn, eins kon­ar út­færsla á meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar í Reykja­vík, með þátt­töku Fram­sókn­ar­flokks­ins sem hef­ur áður rutt braut fyr­ir vinstri stjórn.

Sá mál­efna­bræðing­ur sem gera verður til að byggja und­ir fjöl­flokka vinstri stjórn get­ur ekki orðið annað en leiðar­vís­ir að efna­hags­legri og póli­tískri óvissu­ferð. Rúss­íbanareið fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Í viðtali við Dag­mál á mbl.is fyr­ir skömmu varaði Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, rétti­lega við því „að slík stjórn muni missa tök­in á efna­hags­mál­un­um, því viðvör­un­ar­merk­in eru þegar kom­in, t.d. frá Seðlabank­an­um, um að menn verði að stilla op­in­beru fjár­mál­in við stöðuna í hag­kerf­inu“.

Þekkt­ir „áfangastaðir“

En til að gæta allr­ar sann­girni þá býður vinstri stjórn ekki upp á full­komna óvissu­ferð. Við vit­um hvað er í vænd­um, við vit­um hvert verður stefnt. Óviss­an er fyrst og fremst um hversu al­var­leg­ar af­leiðing­arn­ar verða. Hversu hár reikn­ing­ur­inn verður á end­an­um fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki í formi verri lífs­kjara og af­komu.

Með hliðsjón af sög­unni og stefnu­mál­um þeirra flokka sem gætu tekið hönd­um sam­an í fimm flokka vinstri rík­is­stjórn, þekkj­um við nokkra fyr­ir­fram ákveðna „áfangastaði“ í óvissu­ferðinni:

Skatt­ar á fólk hækka.

Ráðstöf­un­ar­tekj­ur launa­fólks lækka.

Skatt­ar á fyr­ir­tæk­in hækka.

Rík­is­út­gjöld stór­aukast.

Fjár­fest­ing dregst sam­an.

Verðbólga eykst og vext­ir hækka.

Efna­hags­leg­ur óstöðug­leiki.

Póli­tísk­ur glundroði.

Það er und­ir kjós­end­um komið hvort farið verður í óvissu­ferð vinstri flokk­anna eða byggt áfram á stöðug­leika, lægri skött­um og frjó­um jarðvegi fyr­ir öfl­ugt at­vinnu­líf með nýj­um land­vinn­ing­um í ný­sköp­un og framþróun. Vilji kjós­end­ur frem­ur fyrri kost­inn skipt­ir í raun litlu hvaða flokk þeir kjósa næsta laug­ar­dag. Standi hug­ur kjós­enda hins veg­ar til þess að tryggja stöðug­leika og byggja upp bætt lífs­kjör fyr­ir alla er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn eina kjöl­fest­an sem er í boði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2021.