Hefjum garðyrkjunám á Reykjum á ný til vegs og virðingar

Guðrún Hafsteinsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:

Það blas­ir orðið við að stofna verði á ný sjálf­stæðan garðyrkju­skóla á Reykj­um í Ölfusi til að ljúka seinni tíma óvissu- og rauna­sögu Garðyrkju­skóla rík­is­ins sem starfað hafði sjálf­stætt frá stofn­un 1939, en sam­einaðist Land­búnaðar­há­skóla Íslands árið 2005. Við sam­ein­ing­una fór að fjara und­an innviðum starfs­menntanáms í garðyrkju á Reykj­um og nú er svo komið að þetta skóla­ár gæti orðið hið síðasta í yfir 80 ára sögu skóla­halds á þess­um stað. Starfs­fólki fækk­ar, húsa­kosti er ekki haldið við og fleiri feigðarmerki í starf­sem­inni blasa við. Sögu­lok­in skrifa sig sjálf haldi svo fram sem horf­ir. Ætlum við að láta þetta ger­ast þegj­andi og hljóðalaust?

Garðyrkju­bænd­ur og hags­muna­sam­tök garðyrkj­unn­ar vöruðu á sín­um tíma við af­leiðing­um sam­ein­ing­ar­inn­ar fyr­ir 16 árum. Því miður hafa öll þeirra varnaðarorð gengið eft­ir.

Nú­ver­andi mennta­málaráðherra ákvað svo að taka mark á sjón­ar­miðum Sam­bands garðyrkju­bænda og margra fleiri og færa starfs­menntanám í garðyrkju og skyld­um grein­um frá Land­búnaðar­há­skól­an­um til Fjöl­brauta­skóla Suður­lands. Og hvað svo? Spyr sá er ekki veit. Ekk­ert er að frétta af fyr­ir­huguðu fyr­ir­komu­lagi garðyrkju­náms í ranni Fjöl­brauta­skól­ans og að því er ég best veit hef­ur hvorki verið leitað ráða hjá for­ystu­sveit garðyrkju­bænda né sér­fræðinga á Reykj­um í mál­efn­um garðyrkju­náms. Slík sniðganga væri hrein­lega óhugs­andi ef í hlut ættu aðrar iðn- og starfs­mennta­grein­ar. Það full­yrði ég.

Sam­ráði ábóta­vant

Það var greini­legt á viðbrögðum stjórn­enda Fjöl­brauta­skóla Suður­lands að þar hafi sam­ráði í aðdrag­anda ákvörðunar verið ábóta­vant.

Ég sé fyr­ir mér að í end­ur­reist­um, sjálf­stæðum garðyrkju­skóla á Reykj­um verði sér­hæft iðn- og starfs­menntanám í garðyrkju og tengd­um grein­um á fram­halds­skóla­stigi, end­ur­mennt­un og nám­skeið fyr­ir fag­fólk og al­menn­ing, rann­sókn­ir og til­raun­ir í sam­starfi við há­skóla og stofn­an­ir. Garðyrkju­skól­inn gæti auðvitað átt náið sam­starf við til dæm­is Fjöl­brauta­skóla Suður­lands um fræðslu í um­hverf­is­mál­um í víðu sam­hengi og fleira.

Garðyrkj­an þarf á fag­skóla að halda og grænn lífs­stíll kall­ar sömu­leiðis eft­ir því að garðyrkju­nám á Reykj­um verði styrkt og eflt en ekki að horft sé upp á að stoðirn­ar þar bresti og staður­inn grotni niður.

Við skul­um ekki eyða tíma í að velta okk­ur upp úr þeirri staðreynd að sam­ein­ing Garðyrkju­skóla rík­is­ins og Land­búnaðar­há­skól­ans mistókst á sín­um tíma og var mis­ráðin eins og að henni var staðið. Lær­um því af reynsl­unni og tryggj­um að kjarn­a­starf­semi garðyrkju­náms á fram­halds­skóla­stigi verði áfram á Reykj­um. Ræt­ur náms­ins og skól­ans eru á Reykj­um og þar verður best tryggð far­sæl framtíð garðyrkju­mennt­un­ar í land­inu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. september 2021.