Skýr stefna Sjálfstæðisflokks í loftslagsmálum

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:

Ýmsir trúa því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sé eft­ir­bát­ur annarra í um­hverf­is­mál­um og sér­stak­lega lofts­lags­mál­um. And­stæðing­ar flokks­ins ýta und­ir þá ímynd að hann dragi lapp­irn­ar í um­hverf­is­mál­um. Það er hrein firra og bá­bilja. Vert er að gera grein fyr­ir hinu rétta.

Eitt stærsta viðfangs­efni stjórn­mála kom­andi ára

Lofslags­mál eru eitt stærsta viðfangs­efni kom­andi ára. Hlýn­un lofts, hækk­un og auk­in súrn­un sjáv­ar og öfg­ar í veðri gera það að verk­um að nátt­úr­an verður að njóta vaf­ans. Það á við um all­ar þjóðir, en ekki síst Íslend­inga sem eiga allt und­ir um­hverfi og sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda. Hlusta verður á varnaðarorð vís­inda­manna og rann­sókna­stofn­ana. Að veði eru lífs­kjör og þjóðarör­yggi, en um­fram allt framtíð barna okk­ar.

Far­sæl samstaða

Um þetta hef­ur náðst far­sæl samstaða ís­lenskra stjórn­mála og þjóðar. At­vinnu­líf og stjórn­sýsla tek­ur mið af sjálf­bærni­mark­miðum Sam­einuðu þjóðanna til árs­ins 2030. Með því mæt­um við vist­fræði-, fé­lags- og efna­hags­leg­um kröf­um án skerðing­ar lífs­gæða kom­andi kyn­slóða.

Í orra­hríð kosn­inga­bar­áttu hafa ýms­ir kosið að rjúfa þessa sam­stöðu. Tek­ist er á um lofts­lags­stefnu og stjórn­mála­flokk­ar jafn­vel lagðir und­ir um­deil­an­lega lofts­lagsrýni og gef­in ein­kunn fyr­ir stefnu í um­hverf­is- og lofts­lags­mál­um. Sótt er að Sjálf­stæðis­flokkn­um og heil­indi í lofts­lags­mál­um dreg­in í efa.

Par­ís­ar­sam­komu­lagið og heims­mark­mið

Alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins voru full­gilt­ar í tíð rík­is­stjórn­ar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sat í.

Aðkoma sjálf­stæðismanna í ráðuneyt­um, stjórn­sýslu og sveit­ar­fé­lög­um hef­ur tekið sterkt mið af sjálf­bærni­mark­miðum Sam­einuðu þjóðanna. Kveðið er á um fram­leiðslu- og neyslu­mynst­ur; aukið sam­starf varðandi sjálf­bæra þróun; bráðaaðgerðir gegn lofts­lags­breyt­ing­um og aðstoð við þró­un­ar­lönd varðandi lofts­lagsaðgerðir með sterkri skír­skot­un til kvenna, ungs fólks og jaðarsam­fé­laga.

Rík­is­stjórn­ir með aðild Sjálf­stæðis­flokks hafa beitt sér mjög í þess­um efn­um. Fjár­mun­ir og alþjóðasam­vinna stór­auk­in. Þannig hafa fram­lög til lofts­lags­vís­inda á Íslandi auk­ist, fjár­mun­um varið í sam­eig­in­leg nor­ræn verk­efni á sviði þró­un­ar­sam­vinnu til bar­áttu gegn lofts­lags­vá og svo mætti lengi telja. Með fyrstu fjár­mögnuðu aðgerðaáætl­un Íslands í lofts­lags­mál­um hef­ur land­græðsla, end­ur­heimt vot­lend­is og skóg­rækt verið auk­in og ný mark­mið sett um sam­drátt í los­un.

Lofts­lags­ráð Sjálf­stæðis­flokks­ins

Full­yrðing­ar um að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn standi veik­ur gagn­vart um­hverf­is- og lofts­lags­mál­um eru því rang­ar. Sjálf­stæðis­fólk tel­ur að í viður­eign við lofts­lags­vá fel­ist fjöldi tæki­færa, ekki síst með græn­um fjár­fest­ing­um fyr­ir­tækja og ný­sköp­un.

Inn­an öfl­ugr­ar fjölda­hreyf­ing­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur í ár­araðir verið starf­andi lofts­lags­ráð skipað hópi fólks úr at­vinnu­lífi, sveit­ar­stjórn­um, þing­flokki og víðar. Það kraft­mikla starf er öll­um aðgengi­legt á vef flokks­ins.

Hvar grein­ir á?

Þrátt fyr­ir sam­eig­in­leg mark­mið er deilt um leiðir.

Sjálf­stæðis­menn segja að í eigna­rétt­in­um fel­ist mik­il­væg nátt­úru­vernd. Reynsl­an sýn­ir að hag­kvæm nýt­ing nátt­úru­auðlinda sé að jafnaði best tryggð með því að nýt­ing­ar- og af­nota­rétt­ur sé í hönd­um einkaaðila. Við höf­um því slegið skjald­borg um eign­ar- og nýt­ing­ar­rétt ein­stak­linga á lög­vernduðum auðlind­um. Lögð hef­ur verið áhersla á að ráðstöf­un nýt­ing­ar­rétt­inda á auðlind­um í op­in­berri eigu sé gagn­sæ með al­manna­hag að leiðarljósi. Ekki megi grípa til þjóðnýt­ing­ar.

Virkj­um til orku­skipta

Einnig er ágrein­ing­ur um um­fang ork­u­nýt­ing­ar og upp­bygg­ingu og ný­lega um nýt­ingu vindorku inn­an sjálf­bærra þol­marka.

Raun­veru­leg­ar aðgerðir í orku­skipt­um bíla­flota og fisk­veiðiflota yfir í raf­magn og ra­feldsneyti kalla á virkj­un með nyt­sam­leg­um hætti. Þeir sem tala á móti nýj­um virkj­ana­kost­um og upp­bygg­ingu dreifi­kerf­is raf­orku styðja vart græn orku­skipti.

Já­kvæðir hvat­ar í stað boða og banna

Við eig­um að virkja ábyrgð ein­stak­lings í um­hverf­is­mál­um með já­kvæðum hvata í stað boða og banna. Efna­hags­leg skyn­semi felst í efl­ingu hringrás­ar­hag­kerf­is­ins og auk­inni ful­lend­ur­vinnslu. Nýta ný­sköp­un og tækninýj­ung­ar við end­ur­vinnslu og flokk­un sorps og hvata til breyttr­ar um­gengni um plast er ár­ang­urs­rík­asta leiðin.

Virkja þarf einkafram­takið til nátt­úru­vernd­ar. Heim­ila gjald­töku til vernd­ar og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæm­um svæðum til að fjár­magna viðhald og upp­bygg­ingu. Þær tekj­ur eiga heima í héraði.

Við höf­um varað við að taka ákv­arðanir í flýti um upp­bygg­ingu þjóðgarða á miðhá­lend­inu. Í anda sjálf­bærni og ná­lægðarreglu verður slíkt að vera í sátt við aðliggj­andi sveit­ar­fé­lög með virðingu fyr­ir eign­ar­rétti.

Um­hverf­is­mál eru viðvar­andi verk­efni. Við þurf­um að stíga stærri skref í bar­átt­unni gegn lofts­lags­vánni. Með með grænni orku­bylt­ingu sjá­um við mögu­leika í græn­um fjár­fest­ing­um og ný­sköp­un. Það veit á gott fyr­ir land tæki­fær­anna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. september 2021.