Hug­verka­iðnaður er fram­tíðin

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Hugverkaiðnaðurinn er orðinn fjórða stoðin í íslensku efnahagslífi, í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og hefur alla burði til þess að verða stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Störfin sem skapast í hugverkaiðnaði eru hálaunastörf og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Með því að fjölga eggjum í körfunni dreifum við áhættunni og efnahagur þjóðarinnar ræðst ekki af afkomu fárra fyrirtækja eða atvinnugreina.

Ein mikilvægasta auðlind Íslands er hugvit okkar Íslendinga. Auðlind sem er hægt að virkja til sköpunar tölvuleikja, í líftækni, örtækni eða hönnun. Eða í eitthvað allt annað, því hugmyndaflugið eitt setur hugverkaiðnaðinum skorður. Heimurinn breytist hratt, stærstu fyrirtæki heims voru mörg ekki til fyrir áratug síðan.

Með markvissum aðgerðum á kjörtímabilinu sem er að líða hefur verið byggt undir nýsköpun á Íslandi. Skilyrði til skattaívilnunar vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum hafa verið framlengd og einfölduð og viðmiðunarfjárhæðir skattafrádráttar eða endurgreiðslna vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar hafa verið hækkaðar. Vísisjóðurinn Kría var stofnaður sem hefur auðveldað fjármögnun sprotafyrirtækja til muna. Allar þessar aðgerðir eru til þess fallnar að hvetja enn frekar til fjárfestinga í rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi, þróun sem stundum er nefnd fjórða iðnbyltingin.

Hvatarnir hafa þegar skilað miklum árangri. Ekki hafa aðeins orðið til ný fyrirtæki heldur hafa öflug fyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun valið að byggja upp kjarnastarfsemi sína hér á landi. Ísland er samkeppnishæft við önnur ríki. Öflugt atvinnulíf skiptir máli. Öflugur hugverkaiðnaður skiptir máli. Velsæld heimila í landinu byggir á hagvexti, útflutningi og vel launuðum störfum.

Nýlega benti aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á það í grein í Viðskiptablaðinu að um 38% fólks á vinnumarkaði eru nú með háskólagráðu. Til samanburðar var hlutfallið 11% árið 1990. Þetta skapar vinnumarkaðnum mikla áskorun því eins og sakir standa verða ekki til sérhæfð störf fyrir allt þetta vel menntaða starfsfólk og laun háskólamenntaðra munu vafalítið lækka með auknu framboði. Á sama tíma hefur fólk fjárfest í námi sínu, til að mynda með námslánum sem það þarf svo að greiða af þegar út í atvinnulífið er komið.

Það er vissulega lúxusvandamál að vera með svo vel menntað þjóðfélag en vandamál getur það orðið engu að síður ef ekkert er viðhafst til að bregðast við breyttri stöðu. Þess vegna skiptir miklu máli að fjölga nýjum störfum og nýsköpun er svarið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. september 2021.