Betra fjöl­skyldu­líf… bara ekki í Reykja­vík!

Diljá Mist Einarsdóttir, frambjóðandi í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:

Snemma á síðasta ári samþykkti meirihlutinn í Reykjavíkurborg enn eina skerðinguna á grunnþjónustu við borgarbúa, nefnilega varanlega breytingu á opnunartíma leikskóla borgarinnar. Með breytingunni var opnunartími og þar með svigrúm leikskóla stytt um hálfa klukkustund, eða til 16.30. Vegna háværra mótmæla, meðal annars frá vinstrisinnuðum fyrrverandi ráðamönnum, um það að um mikla afturför væri að ræða sem kæmi verst niður á einstæðum foreldrum, útivinnandi konum og láglaunafólki, var ákvörðuninni slegið á frest. Þegar heimsfaraldur skall á notaði meirihlutinn hins vegar tækifærið og innleiddi skerðinguna, en á þeim grundvelli að um væri að ræða ráðstöfun vegna faraldursins. Skálkaskjól veirunnar kom því að góðum notum en skemmst er frá því að segja að opnunartíminn var aldrei færður í upphaflegt horf og stóð því óbreyttur án tillits til tilslakana í samfélaginu.

Nú dynja kosningaloforð Samfylkingarinnar á okkur eins og við séum stödd í gjafaþætti Oprah Winfrey. Samfylkingin boðar „betra líf fyrir fjölbreyttar fjölskyldur“ og „stóraukinn stuðning við barnafjölskyldur“ í formi hærri barnabóta – „endurreisn stuðningskerfis fyrir barnafjölskyldur á Íslandi“.

Við barnafjölskyldur í Reykjavík gætum hugsanlega notað hærri barnabætur til þess að greiða fyrir barnapössunina sem brúar bilið síðdegis vegna skertrar þjónustu á leikskólum borgarinnar. Við gætum ef til vill notað hærri barnabætur til þess að greiða hærra dagvistunargjald fyrir tímabilið frá fæðingarorlofi og til tveggja ára aldurs. Börnin okkar komast nefnilega ekki fyrr að í leikskóla í Reykjavík þrátt fyrir að Samfylkingin hafi lofað okkur því þrennar sveitarstjórnarkosningar í röð; á annan áratug.

Barnafjölskyldur í Reykjavík kjósa tæplega Samfylkinguna vegna loforða þeirra um „fjölskyldur í forgang“. Þær þekkja nefnilega metnaðar- og virðingarleysi hennar fyrir barnafólki og vita að loforðin þeirra eru, eins og svo oft áður, orðin tóm.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2021.