Við viljum fyrsta flokks heilbrigðiskerfi

„Við viljum enn öflugra heilbrigðiskerfi og þar er svo sannarlega hægt að sækja fram. Við erum í dag að horfa á kerfi þar sem mest umræða fer fram um það hvort kerfið þurfi frekari fjárframlög. Það er dálítið dapurlegt, ekki satt, að umræðan sé ekki dýpri en þetta? Ég er frekar fljótur að svara þessari spurning, já það þarf frekari fjárframlög. En við verðum að spyrja okkur um leið hvort við séum að fá hámarks virði fyrir fjárframlögin? Hvað á að koma fyrir viðbótarfjárframlögin og hvernig getum við komið í veg fyrir sóun í kerfinu? Hvernig við sem þjóðfélag, sem erum að skapa svona mikil verðmæti, getum gert kröfu um fyrsta flokks heilbrigðiskerfi? Heilbrigðiskerfi sem stenst allan samanburð við önnur heilbrigðiskerfi í heiminum í lykilatriðum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á vel sóttum opnum hádegisfundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Fundinum var streymt á xd.is og má nálgast upptökuna hér fyrir neðan.

Bjarni benti á að mest aukning til heilbrigðismála á Norðurlöndunum varð á Íslandi á þessu kjörtímabili en aukningin var um 18 milljarðar króna. Hann sagði að hluti af hækkun framlaganna hefði runnið í launaliðinn til að hægt væri að bjóða heilbrigðisstarfsfólki á Íslandi samkeppnishæf laun.

Auk Bjarna fjallaði Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi alþingismaður og háskólarektor, um uppstokkun á lífeyriskerfinu.