Ný forysta kosin í SUS

46. Sambandsþing Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) var haldið í Reykjanesbæ í samstarfi við Heimi, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, helgina 10.-12. september 2021.

Dagskráin var handvalin með það að leiðarljósi að skerpa á áherslum ungra og keyra lokasprett kosningabaráttunnar í gang. Farið var í vísindaferð í bæði Bláa lónið og á varnarsvæðið í Keflavík. Ásdís Halla Bragadóttir, stofnandi Klíníkarinnar og Sinnum og fyrrverandi formaður SUS var með fyrirlestur um íslenskt heilbrigðiskerfi. Þá var forysta flokksins spurð spjörunum úr og málefnastarf SUS var á sínum stað. Á laugardagskvöldið var glæsilegur hátíðarkvöldverður á Hótel Keflavík þar sem veislustjóri kvöldsins var Óli Björn Kárason og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var heiðursgestur.

Helginni lauk síðan með yfirferð á ályktunum, lagabreytingum o.fl. áður en kosning á nýrri stjórn fór fram. Í kjöri til stjórnar sambandsins var Lísbet Sigurðardóttir kosin formaður SUS, Steinar Ingi Kolbeins varaformaður og Ingveldur Anna Sigurðardóttir 2. varaformaður. Auk þeirra voru 25 kjörnir í stjórn ungra sjálfstæðismanna og 15 í varastjórn.

Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS tekur við lyklunum að Valhöll úr hendi Höllu Sigrúnar Mathiesen, fráfarandi formanns SUS.

Samband ungra sjálfstæðismanna skrifaði ályktanir í eftirfarandi málaflokkum; allsherjar- og menntamálum, umhverfis- og samgöngumálum, heilbrigðismálum, Covid-19, stjórnskipunar- og eftirlitsmálum, efnahags- og skattamálum, atvinnuvegamálum og utanríkismálum.