Eitt stærsta hagsmunamál Íslands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi:

Loftslagsváin hefur sent heiminn á hraðferð inn í græna orkubyltingu og Ísland hefur einstakt tækifæri til að taka þar afgerandi forystu. Það er sjálfbært og loftslagsvænt efnahagstækifæri – risastórt tækifæri – sem við eigum að sækja stíft.

Markmið Íslands

Við höfum sett okkur mörg markmið í loftlagsmálum en það sem er kannski skýrast og hreinlegast af þeim öllum snýst einfaldlega um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Að við hættum að nota innflutta olíu. Þetta markmið var sett í nýrri langtímaorkustefnu fyrir Ísland, sem ég beitti mér fyrir að yrði unnin í þverpólitísku samstarfi.

Hvenær viljum við að það gerist? Í orkustefnunni segir fyrir árið 2050 en þar sem ómögulegt er að spá fyrir um hvernig mál þróast er eðlilegra að stefna að því að ná þessu markmiði fyrst allra þjóða heims. Það er raunhæft, við getum það og því myndu fylgja gríðarleg tækifæri, fyrir umhverfið og fyrir okkur öll.

Hvað þarf til?

Greiningar sem unnar hafa verið fyrir Samorku benda til þess að við þurfum um 1.200 megavött af uppsettu afli í raforku til að losa okkur við núverandi notkun okkar á jarðefnaeldsneyti á öllum sviðum, í lofti, láði og legi, hér innanlands. (Millilandaflug er því undanskilið). Þessi tala getur hækkað eða lækkað eftir því hvaða orkugjafar munu koma í stað olíunnar, en það gætu orðið rafmagn, vetni, annað rafeldsneyti eða lífmassi í ólíkum hlutföllum eftir því hvort um er að ræða þungaflutninga, innanlandsflug, fiskipskipaflotann o.s.frv.

Til að setja 1.200 MW í samhengi þýðir þetta að við þurfum að auka raforkuframleiðslu um ríflega þriðjung frá því sem nú er. Það er alls ekki óyfirstíganleg áskorun. En þessu til viðbótar þurfum við að geta sinnt þörfum nýrrar orkusækinnar starfsemi á borð við gagnaver, ylrækt og fleira, auk þess sem við gætum viljað selja hluta af græna eldsneytinu okkar til annarra landa. Loks er allt útlit fyrir að millilandaflug færi sig á næstu árum yfir í umhverfisvænna eldsneyti, sem við myndum að sjálfsögðu líka vilja framleiða. Orkuþörfin er því umtalsverð, fyrir alvöru orkuskipti.

Til að sækja þetta tækifæri þurfum við að styðja myndarlega við þróun á þeim nýju lausnum sem þarf til að skipta út núverandi mengandi orkugjöfum, hafa aðlaðandi og samkeppnishæft umhverfi fyrir fjárfesta sem vilja byggja upp græna starfsemi, og tryggja að sú orka sem til þarf verði til staðar. Núverandi regluverk stendur í vegi fyrir því og úr því þarf að bæta, án þess að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Hvað þýðir það fyrir mig og þig?

Ávinningurinn er bæði stór og margþættur. Loftslagið mun njóta góðs af. Aðgengi íslenskrar framleiðslu að erlendum mörkuðum mun stóraukast og verð hennar hækka. Þjóðarbúið mun spara tugi milljarða í gjaldeyristekjur sem í dag fara til kaupa á mengandi jarðefnaeldsneyti frá útlöndum. Orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands mun aukast. Aukin raforkuframleiðsla í þágu stærri hóps viðskiptavina stuðlar að betri nýtingu orkuauðlinda og minni sóun á þeim, sem er því miður umtalsverð í dag. Dýrmæt þekking mun byggjast upp á Íslandi sem hægt verður að flytja út. Sprotar og nýsköpunarfyrirtæki munu spretta fram og vaxa, rétt eins og gerst hefur í kringum sjávarútveginn svo dæmi sé tekið. Ísland mun vekja heimsathygli ef við tökum afgerandi forystu í loftslagsmálum og grænu byltingunni, með allri þeirri landkynningu og fjölbreytta ávinningi sem slík staða hefur í för með sér. Og síðast en ekki síst verða til ný atvinnutækifæri og stóraukin verðmætasköpun; hreinlega nýr hugvitsdrifinn atvinnuvegur í framleiðslu á vistvænu eldseyti framtíðarinnar.

Hugur þarf að fylgja máli

Ákvörðunin um þessa framtíðarsýn hefur í raun verið tekin. Við höfum tekið hana sjálf, en heimurinn hefur líka að einhverju leyti tekið hana fyrir okkur vegna þess að hér er um aðkallandi hagsmuni alls mannkynsins að ræða.

Spurningin snýst um trúverðuga leið að markmiðinu og hvort hugur fylgir raunverulega máli um að sækja fram og sækja tækifærin. Sú spurning er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands til framtíðar, en henni þarf að svara strax í dag. Það dugar ekki að segjast vilja orkuskipti og græna nýsköpun en horfa á sama tíma framhjá orkunni sem þarf til. Hér þarf að fara saman hljóð og mynd.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 5. september 2021.