Hjálpræðisherinn – hjálparstarf í 126 ár

Kjartan Magnússon, frambjóðandi í 4. sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður:

Nýr her­kastali Hjálp­ræðis­hers­ins var vígður við hátíðlega at­höfn í Soga­mýri sl. sunnu­dag. Við vígsluna kom fram að sam­tök­in munu áfram byggja á þeim hug­sjón­um, sem hafa verið leiðarljós þeirra í meira en öld. Með nýja hús­næðinu ætla þau enn að efla starf sitt í þágu bág­staddra Reyk­vík­inga.

126 ár eru nú liðin síðan Hjálp­ræðis­her­inn hóf starf­semi sína í miðbæ Reykja­vík­ur, sem var þá ört vax­andi bær. Árið 1895 voru Íslend­ing­ar lík­lega fá­tæk­asta þjóð Vest­ur-Evr­ópu. Ára­tug­ina á und­an hafði fjöldi fólks flosnað upp úr sveit­um lands­ins vegna harðinda og fá­tækt­ar. Marg­ir fluttu til Reykja­vík­ur en áttu þar vart til hnífs og skeiðar. Mik­il þörf var því fyr­ir fá­tækra­hjálp í bæn­um en lítið fór fyr­ir henni því þetta var löngu áður en op­in­berri vel­ferðarþjón­ustu var komið á.

Frum­kvöðull í hjálp­ar­starfi

Það var við þess­ar aðstæður sem Hjálp­ræðis­her­inn hóf um­fangs­mikið hjálp­ar­starf í Reykja­vík og boðaði auk þess fagnaðar­er­indið. Heim­il­is­laust fólk fékk mat og húsa­skjól auk marg­vís­legr­ar annarr­ar þjón­ustu. Lengi vel var hjálp­ar­starf Hers­ins mun um­fangs­meira en sú þjón­usta, sem bæj­ar­fé­lagið veitti ógæfu­mönn­um og öðru bág­stöddu fólki.

Ég var ekki hár í loft­inu þegar ég fór að venja kom­ur mín­ar í miðbæ­inn. Ógæfu­menn voru þá fleiri og meira áber­andi en nú. Marg­ir þeirra áttu ekki neitt en hjá Hern­um gátu þeir alltaf fengið fæði, húsa­skjól og sálu­hjálp. Stund­um sá maður fólk frá Hern­um hjálpa þess­um mönn­um á fæt­ur þar sem þeir lágu ofurölvi og ósjálf­bjarga og styðja þá í kast­al­ann þar sem beið heit­ur mat­ur og hlýtt rúm.

Ógern­ing­ur væri að telja upp í stuttri blaðagrein öll þau góðverk, sem Her­inn hef­ur unnið í þágu Reyk­vík­inga í rúma öld. En þau verk hafa verið fjöl­breyti­leg og ekki ein­skorðast við Her­kastal­ann og næsta ná­grenni hans eins og sum­ir halda e.t.v. Ljóst er að við Reyk­vík­ing­ar stönd­um í mik­illi þakk­ar­skuld við Hjálp­ræðis­her­inn.

Flutn­ing­ur í Soga­mýri

Fyr­ir nokkr­um árum ákvað Hjálp­ræðis­her­inn að selja kast­al­ann við Kirkju­stræti og byggja nýtt hús und­ir starf­sem­ina. Gamla húsið var komið til ára sinna og hentaði ekki leng­ur eins og gef­ur að skilja. Sótt var um lóð hjá borg­inni og fékk Her­inn út­hlutað lóð í Soga­mýri við hlið lóðar, sem skömmu áður hafði verið út­hlutað und­ir mosku­bygg­ingu.

Þegar mosku­lóðinni var út­hlutað til Fé­lags múslima ákvað borg­ar­ráð að fella niður öll gjöld vegna henn­ar.

Köld kveðja til Hjálp­ræðis­hers­ins

Við út­hlut­un lóðar­inn­ar til Hjálp­ræðis­hers­ins brá hins veg­ar svo við að borg­in ákvað að rukka lóðagjöld, sem nema um 55 millj­ón­um króna. Lögðu borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins ít­rekað til að Hjálp­ræðis­her­inn fengi sams kon­ar fyr­ir­greiðslu og lóðar­haf­inn við hliðina enda um trú­fé­lag að ræða í báðum til­vik­um. Til­lög­ur þess­ar voru ým­ist felld­ar eða þeim vísað frá að til­lögu Dags B. Eggerts­son­ar borg­ar­stjóra, með at­kvæðum Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Vinstri grænna.

Ótrú­leg mis­mun­un

Þessi afstaða vinstri meiri­hlut­ans til Hjálp­ræðis­hers­ins er auðvitað ótrú­leg þegar haft er í huga starf­semi sam­tak­anna í þágu bág­staddra Reyk­vík­inga und­an­far­in 126 ár. Það starf er auðvitað ekki hægt að meta til fjár en með slíkri niður­fell­ingu lóðar­gjalda hefði borg­in a.m.k. getað sýnt sam­tök­un­um tákn­ræn­an þakk­lætis­vott.

Von­andi sér meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar að sér og end­ur­greiðir lóðagjöld­in, nú þegar húsið hef­ur verið tekið í notk­un. Þannig yrði loks leiðrétt mis­mun­un gagn­vart þessu trú­fé­lagi og þeim hjálp­ar­sam­tök­um, sem Reyk­vík­ing­ar standa í mestri þakk­ar­skuld við. Ekki þyrfti að ótt­ast að hinu end­ur­greidda fé yrði varið í vit­leysu. Því yrði öllu varið í þágu bág­staddra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. september 2021.