Halldór Blöndal leggur baráttunni lið í Norðausturkjördæmi

Síðustu daga hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins verið í hringferð um landið. Frambjóðendum er skipt upp í nokkurra manna hópa sem hafa ferðast á mismunandi staði á landinu í öllum kjördæmum. Eftir daginn í dag hafa um 100 vinnustaðir á höfuðborgarsvæðinu verið heimsóttir og yfir 70 svæði á landinu öllu þar sem frambjóðendur hafa hitt mörg hundruð manns á vinnustöðum, á fundum og á förnum vegi um land allt.

Í dag er hópur frambjóðenda flokksins staddur í Eyjafirði þar sem púlsinnn verður tekinn á fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Með frambjóðendunum í för er Halldór Blöndal, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi en hann sat á Alþingi og í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1979 til 2005, öll árin fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og Norðausturkjördæmi eftir kjördæmabreytingu. Á þingmannsferli sínum gegndi Halldór embætti samgöngu- og landbúnaðarráðherra og var forseti Alþingis. Halldór gegnir nú formennsku í Samtökum eldri sjálfstæðismanna (SES).

Það er mikill fengur í því að fá Halldór með í baráttuna Hann þekkir ekki einungis málefni kjördæmisins vel heldur einnig mikið af fólki á svæðinu og er auðfúsugestur hvar sem hann kemur. Íbúar í Eyjafirði mega því búast við að rekast á frambjóðendur flokksins ásamt Halldóri í dag en nú síðdegis verður hópurinn á ferð á Akureyri.