Sjálfstæðisstefnan fái áfram að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og frambjóðandi í fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavík suður, var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag. Viðmælendur voru Áslaug, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Sigmundur Davíð Gunnarsson, formaður Miðflokksins. Rætt var um helstu kosningaáherslur flokkanna þriggja.

Sjálfstæðisstefnan fái áfram að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag

Varðandi kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins sagði Áslaug að hún teldi að kosningarnar í haust muni snúast um hvort stefna Sjálfstæðisflokksins fái áfram að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag eða hvort breytt yrði yfir í vinstri stefnu. Þá nefndi hún þau áherslumál sem sett voru á oddinn á flokksráðs- og formannafundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var um helgina.

„Við sjáum það að hér býr fólk við góð lífsgæði sem best það gerist í heiminum. Það eru auðvitað áskoranir víða […], í lífeyrismálunum, heilbrigðismálunum og orku- og loftslagsmálunum og það var það sem við vorum að ræða í gær [á flokksráðs- og formannafundi], um skýra stefnu í þessum málum. Við höfum trú á fólkinu í landinu og viljum ekki snúa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið af stefnu Sjálfstæðisflokksins í þjóðmálunum til lengri tíma. Það er talsvert augljóst hvað bíður manns þegar maður heyrir stefnu Samfylkingarinnar, Sósíalista og allra vinstri flokkanna.“

Áslaug nefndi hve vel hefur tekist til að rétta úr kútnum í kjölfar heimsfaraldurs vegna ábyrgrar fjármálastjórnar undir handleiðslu Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Skattalækkanir, fjárfestingar og uppbygging hafi skilað sér í háu atvinnustigi og betri afkomu en margir þorðu að vona í heimsfaraldrinum.

„Þegar komið í ljós að afkoma ríkisins er mun betri en gert var ráð fyrir, og það er hægt að þakka því þeim aðgerðum sem gripið var til.“

Skiptir máli hvert peningar fara sem settir eru í heilbrigðiskerfið

Frambjóðendunum var tíðrætt um heilbrigðiskerfið en í því sambandi nefndi Áslaug að skoða þyrfti hvað fengist fyrir þá fjármuni sem settir eru í heilbrigðiskerfið.

„Það eru ekki bara fjármunirnir sem skipta máli heldur hvernig við ætlum að fara með þá. Það þarf að ræða innan heilbrigðiskerfisins. Við eigum mjög sterkt og öflugt heilbrigðiskerfi og höfum bætt verulega í fjármuni til kerfisins, […] og við megum ekki vera hrædd við að gera samninga við einkaaðila.“

Alltaf tilefni til þess að lækka skatta

Þá benti Áslaug á þær skattalækkanir sem hafa áorkast á undanförnum árum og hvernig þar kristallist munurinn á stefnu Sjálfstæðisflokksins annars vegar og svo Samfylkingar og Miðflokks hins vegar.

„Við erum búin að lækka tekjuskatt sem nemur 35 milljörðum á undanförnum árum, tryggingagjaldið um 25 milljarða – þetta er veruleg búbót fyrir fólk, hvort sem það er fyrir heimilisbókhaldið eða fyrirtækjabókhaldið. Við auglýsum áfram lægri skatta, og það er vegna þess að Sjálfstæðisflokknum finnst alltaf tilefni til þess að lækka skatta á meðan stefna annarra flokka snýst um að útdeila peningum eftir á eða hækka skatta.“

Áslaug benti einnig á að það væru aðrar leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð en skattheimta. „Það sem Logi tekur aldrei inn í jöfnuna er að það eru líka aukin verðmæti sem skapa tekjur fyrir ríkissjóð og það þarf að styrkja atvinnulífið en ekki skattleggja það í hel svo það skapi einmitt minni verðmæti til að nýta í þágu þjóðarinnar og í þágu þjónustu. Við erum ekki að fara að skerða þjónustu heldur ætlum við að fara í uppstokkun og skoða kerfin okkar, hvernig við getum fengið meira fyrir peninginn sem við erum þegar að setja í kerfin.“

Áslaug sagði að það væri fyrst og fremst áherslumál í aðdraganda kosningamál að efla það góða umhverfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi skapað fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.

„Það verður ekki gert með skattahækkunartillögum Loga eða loforðum Sigmundar um að deila síðan út peningum. […] Við höfum sýnt það að við sýnum ráðdeild, borgum niður skuldir og lækkum síðan skatta.“

Hér má hlusta á viðtalið.