Í um­hverfis­málum koma lausnirnar frá hægri

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi:

Loftslagsmálin eru ein af stærstu verkefnum okkar kynslóðar og við erum öll sammála um mikilvægi þess að gripið verði til aðgerða. Markmið okkar allra hlýtur að vera að við spornum við frekari hlýnun jarðar af mannavöldum. Þess vegna er svo mikilvægt að við veljum vandlega réttu leiðina að þessu markmiði okkar og að aðgerðirnar skili árangri.

Orkumál eru loftslagsmál

Tækifærin í orkumálum eru einmitt til þess fallin að auka styrk okkar í loftslagsmálum. Við munum þó ólíklega ná settum markmiðum okkar nema með því að fá atvinnulífið með okkur í för.

Það eru grænu verkefnin tengd atvinnulífinu sem við þurfum helst að horfa til. Bæði umhverfisins vegna og þeirrar björtu framtíðar sem blasir við Íslandi ef við nýtum tækifærin til grænnar orkuuppbyggingar í þágu okkar, atvinnulífsins og umhverfisins.

Orkuskiptin eru okkar leið

Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland verði fyrsta landið þar sem bílar, skip og flugvélar nýta eingöngu endurnýjanlega orkugjafa. Þetta eru allt raunhæf markmið. Með því að stíga þetta skref getum við hætt að flytja inn, erlendis frá, mengandi jarðefnaeldsneyti og nýtt þess í stað hreina íslenska orku. Þetta væri risastórt framlag til umhverfisins og mundi um leið auka atvinnu, spara gjaldeyri og bæta lífskjör okkar allra.

Hvað þarf að gera?

Orkuskiptin kalla á aukið framboð raforku og við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd. Sjálfstæðisflokkurinn segir þetta alveg skýrt. Aðrir flokkar tala fyrir orkuskiptum en neita því miður að horfast í augu við staðreyndir. Við þurfum að búa til meiri hreina íslenska endurnýjanlega orku ef við viljum hjálpa umhverfinu. Hjá því verður ekki komist ef raunveruleg orkuskipti eiga að geta orðið að veruleika.

Rafmagn út um allt

Á síðustu misserum hefur algjör sprenging orðið í sölu á rafhjólum, rafbílum og rafskutlum. Þetta er ekki síst vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn dró verulega úr skattheimtu á þessi tæki sem leiddi til þess að verð til neytenda lækkaði. Okkar aðgerðir hafa virkað.

Á sama tíma eru vinstri flokkarnir sem mynda borgarstjórnarmeirihluta Reykjavíkurborgar á algerum villigötum. Hleðslustöðvarnar sem ON setti upp standa engum til gagns vegna klúðurs og stefnuleysis. Borgarstjórn tókst ekki einu sinni að kaupa rafmagn af sjálfri sér!

Loftslagsmálin eru aðkallandi og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er með lausnirnar.

Greinin birtist á visir.is 27. ágúst 2021.