Fundi flokksráðs- og formanna lokið

Fundi flokksráðs og formanna Sjálfstæðisflokksins lauk rétt í þessu. Með því lauk enn einum áfanganum í lýðræðisveislu Sjálfstæðisflokksins sem staðið hefur yfir þetta ár með prófkjörum í öllum kjördæmum þar sem 20.771 flokkmenn tóku þátt og svo nú þegar flokksráð og formenn allra félaga og ráða í flokknum komu saman til að móta stefnu flokksins í næstu kosningum.

Fundurinn var haldinn á Hilton hótel Nordica og á sex öðrum stöðum á landinu samtímis. Fundinn sóttu á fjórða hundrað manns um land allt og var mikill baráttuhugur í fólki fyrir komandi kosningabaráttu.

Fundinum lauk með afgreiðslu stjórnmálaályktunar þar sem kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins í komandi þingkosningum er að finna.

Helstu áhersluatriði úr stjórnmálaályktun eru:

  • Ábyrg efnahagsstjórn – forsenda þess að lífskjör á Íslandi haldi áfram að batna.
  • Réttur til heilbrigðisþjónustu tryggður – ný þjónustutrygging setji fólk í fyrsta sæti.
  • Græn orkubylting – Ísland taki forystu í orkuskiptum með því að nýta græna innlenda orku.
  • Tryggingakerfi eldri borgara endurskoðað frá grunni og frítekjumark atvinnutekna hækkað strax í 200 þúsund krónur á mánuði.
  • Lægri skattar – í þágu heimila og fyrirtækja.
  • Öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf – lægri álögur, einfaldara regluverk og hvatar til nýsköpunar.
  • Stafrænt Ísland – betri þjónusta, hraðari afgreiðsla, auðveldara aðgengi og einfaldara líf.
  • Uppstokkun á tryggingakerfi öryrkja – styrkja fjárhagslegt sjálfstæði og auka möguleika til atvinnuþátttöku.
  • Nútímalegar, greiðar og öruggar samgöngur um allt land – uppbygging öflugri innviða með valfrelsi og fjölbreytni að leiðarljósi.
  • Frjáls alþjóðaviðskipti – höldum áfram að opna markaði um allan heim fyrir íslenskum útflutningi.
  • Stafræn bylting í heilbrigðis og velferðarþjónustu.
  • Aukin fjölbreytni í menntakerfinu – til að halda í við öra þróun samfélags og þarfir atvinnulífs.

Fyrir hádegi fóru fram þrjár málstofur á fundinum. Fyrst var rætt um framtíð heilbrigðiskerfisins. Frummælendur voru Björn Zoëga og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Þá fór fram málstofa um græna orkubyltingu. Þar voru í pallborði þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þriðja málstofan fjallaði um nýja nálgun í örorku- og ellilífeyrismálum en frummælandi þar var Vilhjálmur Egilsson fyrrverandi alþingismaður og háskólarektor.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti fundinn kl. 13:30 og var ræðunni streymt beint á facebook – sjá hér.

Að lokinni formlegri setningu voru svo drög að stjórnmálaályktun lögð fyrir og afgreidd sem fyrr segir nú fyrir stuttu. Stjórnmálaályktun verður birt hér á síðunni síðar í dag.

Samhliða umræðum um stjórnmálaályktun fór fram bein útsending þar sem Guðfinnur Sigurvinsson og Halla Sigrún Mathiesen tóku nokkra fundarmenn tali um áherslur flokksins og efni fundarins – sjá hér.

Stjórnmálaályktun flokksráðsfundar má finna hér. Hún er birt með fyrirvara um málfars- eða innsláttarvillur.