Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamála og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, var gestur Bítisins á Bylgjunni í morgun.
Í þættinum ræddi Þórdís Kolbrún m.a. um orkuskipti og hvernig framtíðarsýn hennar er hvað þau varðar hér á landi. Að mati Þórdísar Kolbrúnar snúast orkuskiptin ekki bara um það að hér sé hægt að kaupa rafbíla, heldur þurfi skipaflotinn og flugflotinn í framtíðinni að geta notað nýja orkugjafa. Það þýði að hér þurfi að framleiða meiri raforku og þar með spara gjaldeyristekjur fyrir allt að 80-120 milljarða á ári sem fara í innflutning á jarðefnaeldsneyti
Hún segir að Ísland eigi að vera fremst í flokki og skapa tekjur og eftirsóknarverð ný störf með grænu orkubyltingunni og auka þannig lífskjör og lífsgæði hér á landi. Þá ræddu þau einnig ferðaþjónustuna.
Þórdís Kolbrún telur margt hafa gengið betur en hún hefði þorað að vona í vor og að það hafi breytt leiknum að hleypa fólki utan Schengen inn til landsins gegn bólusetningarvottorðum. Hins vegar hafi bókanir hjá ferðaskrifstofum hér á landi vegna ferðalaga Íslendinga erlendis hrunið. Óvissan við það að fara fram og til baka með ákvarðanir hafi áhrif á bókunarstöðu og markaðsstöðu fyrirtækja. Að mati Þórdísar Kolbrúnar sé það hins vegar ljóst að á Íslandi verði alltaf sterk ferðaþjónusta því fjöldi ferðamanna skipti ekki mestu máli heldur hvað greinin skilji eftir sig og hvers konar verðmæti hún skapi.