Breytt staða – breytt nálgun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Þegar þetta er skrifað eru rúmlega 2.500 einstaklingar í sóttkví hér á landi. Mun fleiri eru sennilega í óskráðri sóttkví samkvæmt fyrirmælum sem berast með óformlegri hætti eða af sjálfskipaðri varúð. Þetta felur í sér mikla röskun á daglegu lífi alls þessa fólks og allra sem á þau treysta, bæði í einkalífi og vinnu. Við það bætist að óttinn við að lenda í sóttkví lamar alls kyns framtak; stór hluti þjóðarinnar heldur bókstaflega að sér höndum.

Við erum bólusett samfélag sem stendur frammi fyrir stærstu bylgju smita sem gengið hefur yfir landið og ef við getum lært af reynslu annarra ríkja má búast við að smitum fjölgi, jafnvel verulega, eftir að skólastarf hefst af krafti. Það myndi að óbreyttum reglum leiða til þess að jafnvel enn stærri hluti þjóðarinnar þurfi að loka sig af heima sjá sér í sóttkví. Ástæðan er vitaskuld sú að við beitum nánast sömu reglum um sóttkví nú eins og áður í faraldrinum.

Fyrirsjáanleg holskefla sóttkvíar meðal barna, ungmenna og foreldra hefur eðlilega verið tilefni vaxandi umræðu undanfarna daga. Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla, segir þannig í viðtali við Morgunblaðið: „Ég myndi vilja breyta reglum um sóttkví hjá einkennalausum, börnum og skólastarfsfólki. Það verður allt komið í lás eftir eina til tvær vikur ef við höldum óbreyttum reglum um sóttkví. Hjúkrunarfræðingar eiga líka börn.“ Þetta er ekki langsótt spá hjá Jóni Pétri.

Á sama tíma beita löndin í kringum okkur mun vægari reglum í tengslum við sóttkví barna og fullorðinna. Þar eru heilu bekkjardeildarnar að jafnaði ekki settar í sóttkví þótt einstaka smit greinist, notast er við hraðpróf til þess að halda skólastarfi gangandi og bólusettir einstaklingar þurfa að jafnaði ekki að sæta sóttkví, þótt þeir séu hvattir til smitgátar og prófunar hafi þeir verið í návígi við smitaðan einstakling.

Eðlilegt er að spurt sé af vaxandi þunga hvort tilefni sé til þess að endurskoða reglurnar hér heima, einkum í ljósi þess að hinar háu smittölur á Íslandi eru að koma fram í samfélagi sem er nánast búið að bólusetja að fullu. Ánægjulegt er að slík endurskoðun sé nú að eiga sér stað.

Góður árangur Íslands þrátt fyrir smit

Nýgengi smita á Íslandi er nú hátt í samanburði við stöðuna í flestum Evrópulöndum um þessar mundir, en þó töluvert langt undir stærstu toppum sem sést hafa áður í mörgum löndum í kringum okkur. Dæmi eru um nágrannalönd þar sem smit eru útbreiddari en hér (t.d. Bretland, Frakkland og Spánn) en mun fleiri lönd eru hins vegar með umtalsvert lægri útbreiðslu en við.

Stóri munurinn á þeirri bylgju sem nú gengur yfir á Íslandi og því sem gerðist í vetur er að ólán okkar í dreifingu smita er að eiga sér stað eftir að búið er að bólusetja 90% fullorðinna einstaklinga. Enginn vafi er á því að árangur Íslands í að halda niðri smitum á meðan bólusetningarátakið stóð yfir var lykilatriði við að vernda samfélagið eins vel og hugsast mátti gegn skaðsemi veirunnar. Við erum blessunarlega mjög neðarlega á hinum miklu verri lista um fjölda andláta af völdum covid-19 í Evrópu og munar þar miklu á Íslandi og flestum öðrum löndum.

Breytt nálgun
Kórónaveiran hefur haldið heimsbyggðinni í heljargreipum veikinda og ótta. Samfélög hafa víða lamast og annars staðar hefur lífið varla verið skugginn af því sem fólk á að venjast. En lífið er sem betur fer víðast að hrökkva í gang. Sums staðar var kostnaðurinn skelfilegur, samsvarandi hundruðum andláta á íslenskan mælikvarða og langvarandi hættuástand í heilbrigðiskerfinu. En jafnvel þar sem skelfingin var sem mest hefur áherslan nú flust yfir á að standa vörð um þá hluti mannlegrar tilveru sem gefa lífinu sjálfu gildi: samveru við annað fólk, frelsi, menningu, menntun o.s.frv.

Heimfaraldurinn hefur reynst skæður óvinur mannkynsins. Þó er enginn vafi að mannkynið og mennskan mun að endanum sigra og hér á landi erum við vonandi komin langleiðina að slíkum sigri, þökk sé samstöðu þjóðarinnar. Við sýndum þolgæði í gegnum erfiðan vetur og tókum brosandi þátt í bólusetningarátaki sumarsins. Vörnin sem við höfum hlotið er ekki algjör eða fullkomin, en hún er líklega eins og best er á kosið.

Framúrskarandi árangur okkar við að koma í veg fyrir alvarleg veikindi ætti að gefa okkur okkur vaxandi sjálfstraust. Hér eftir sem hingað til er það skylda okkar að vernda líf og heilsu fólks og tryggja að okkar framúrskarandi heilbrigðiskerfi geti tekist á við þennan nýja veruleika. Þar eru tækifæri til að nýta tæknina betur og stafræna innviði til að létta undir með starfsfólki og sjúklingum.

Staðan er þannig hér að þjóðfélagið okkar er komið að þolmörkum sóttkvíar. Við ætlum og verðum að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Baráttan gegn farsóttinni snýst nefnilega ekki bara um telja smit, heldur um að standa vörð um skólagöngu barnanna okkar, geðheilsu og lífshamingju meðbræðra okkar og systra; og um lífið sem við elskum að geta lifað til fulls. Þangað stefnum við og þar er sigurinn í þessari baráttu að finna.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 22. ágúst 2021.