Hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Við ræðum þessa dag­ana um marg­háttaðan vanda heil­brigðis­kerf­is­ins, verri þjón­ustu við leg­háls­skiman­ir og liðskiptaaðgerðir og van­mátt Land­spít­al­ans til að tak­ast á við erfið verk­efni. Í þeirri umræðu virðast flest­ir ganga út frá því sem gefnu að heil­brigðisþjón­ust­an skuli kostuð og miðstýrð af rík­inu. Eng­ar aðrar lausn­ir komi til greina en aukið fjár­magn úr rík­is­sjóði þegar að krepp­ir í rekstr­in­um. Orðið „einka­væðing“ er óspart notað sem skamm­ar­yrði þegar bent er á leiðir til að draga úr kostnaði en bæta samt þjón­ust­una í leiðinni.

Ég tel nauðsyn­legt að brjóta upp þessa umræðuhefð um heil­brigðis­kerfið. Hún er kom­in í ógöng­ur þegar aðeins ein skoðun er leyfð. Það þarf að skoða kerfið frá grunni og okk­ur ber skylda til að vera vak­andi fyr­ir nýj­ung­um og bætt­um rekstri í þágu okk­ar allra. Umræða um heil­brigðis­kerfið þarf að taka mið af þörf­um hinna sjúkra­tryggðu en ekki kerf­is­ins. Því þurf­um við að ræða nýj­ar leiðir til að ná fram bættri nýt­ingu fjár­muna, auk­inni fram­leiðni og skil­virkni í heil­brigðis­kerf­inu. Þetta er hægt að gera án þess að auka kostnaðarþátt­töku þeirra sem þurfa á þjón­ust­unni að halda. Í mín­um huga er nauðsyn­legt að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki þeirra komi í aukn­um mæli að ákveðnum verk­efn­um og einnig er sjálfsagt að taka upp lausn­ir úr al­menn­um fyr­ir­tækja­rekstri til að ná fram auk­inni fram­leiðni og hag­kvæmni við rekst­ur sjúkra­stofn­ana.

Björn Zoëga, for­stjóri Karólínska há­skóla­sjúkra­húss­ins í Stokk­hólmi, seg­ir t.d. í viðtali við Morg­un­blaðið, að fjár­mögn­un­ar­kerfi Land­spít­al­ans sé úr sér gengið. Setja þurfi hvata til að ná fram auk­inni fram­leiðni og skapa stjórn­end­um og starfs­fólki mark­mið til að keppa að. Ekki sé skyn­sam­legt að haga mál­um þannig að það sé sama hvað stjórn­end­ur geri, þeir fái alltaf aukið fjár­magn.

Björn hef­ur náð mikl­um ár­angri í rekstri Karólínska sjúkra­húss­ins og hann þekk­ir vel til hér á landi sem fyrr­ver­andi for­stjóri Land­spít­al­ans. Það er því ástæða til að staldra við þessi orð hans og huga að því að nálg­ast mál­in frá ann­arri hlið en þeirri sí­gildu, að kalla sí­fellt eft­ir auknu fjár­magni úr rík­is­sjóði. Við þurf­um að gera aukn­ar kröf­ur til stjórn­enda með þeim hætti sem Björn lýs­ir í viðtal­inu.

Aðferðin sem Björn Zoëga lýs­ir er til þess fall­in að auka skil­virkni og hag­kvæmni í rekstri sjúkra­húsa og bæta um leið þjón­ust­una við sjúk­ling­ana. Er það ekki það sem all­ir vilja? Einka­rekst­ur og einkafram­tak hef­ur verið ómet­an­legt í bar­átt­unni við Covid-19-far­ald­ur­inn. Fram­lag Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar í þeim far­aldri sem nú stend­ur hef­ur verið ómet­an­legt. Það er ástæðulaust að ótt­ast lausn­ir sem fela það í sér að nýta kosti sam­keppn­inn­ar til að skapa aðhald og sam­an­b­urð. aslaugs@alt­hingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 2021.