Viðreisn vinstri manna

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Hið pólitíska landslag breytist ört. Nýir flokkar koma og fara í hverjum kosningum og fylgi rótgrónari framboða sveiflast í takt við tíðarandann. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka haldið stöðu sinni sem langstærsta stjórnmálahreyfing landsins og mælist iðulega um tvöfalt stærri en sá næsti. Aðrir eru ekki svipur hjá sjón.

Hæst ber hnignun Samfylkingarinnar, sem eitt sinn var breiðfylking krata og hófsamra jafnaðarmanna og naut um 30% fylgis á árum áður. Flokkurinn hefur nú endurskilgreint sig sem popúlíska öfgavinstrihreyfingu og má gott heita ef fylgi hennar hangir í kringum 10%, þriðjung þess sem áður var. Stefnumálin eru enda fábrotin og hverfast fyrst og fremst um hærri skatta, meiri ríkisafskipti og það sem hæst ber á samfélagsmiðlum hverju sinni.

Í orði eða á borði?

Það má með sanni segja að hinn hófsami krati sé týndur í stjórnmálaumhverfi nútímans. Þó einhverjir leiti í VG hefur flokkurinn sögulega ekki höfðað sérstaklega til þess hóps. Lítið rennur til Sósíalistaflokks fyrrum auðkýfingsins Gunnars Smára Egilssonar, sem kennir sig nú við gjaldþrota hugmyndafræði einræðisherra í löndum á borð við Kúbu og Venesúela.

Þeir sem hallast til vinstri, en þó ekki um of, virðast því helst eiga skjól í fangi Viðreisnar. Í orði er Viðreisn miðju-hægriflokkur, en hefur á borði teygt sig til vinstri. Sést það best í Reykjavík, þar sem flokkurinn stökk á fyrsta tækifæri til að styrkja vinstrimeirihlutann sem hefur stefnt borginni í verulegar fjárhagskröggur síðustu ár. Flokksfólki líður best í umræðum um aðild að Evrópusambandinu og álíka dægurmál, en fátt er um svör þegar kemur að raunverulegum stefnumálum.

Skýrar línur

Í haust verður kosið um stöðugleika og skynsamleg skref út úr kórónukreppunni. Það er til mikils að vinna að forðast hreinan vinstrimeirihluta, líkt og réði ríkjum eftir efnahagshrunið 2008 með tilheyrandi afleiðingum. Fátt liggur fyrir um áætlun Viðreisnar að loknum kosningum, en formaðurinn hefur ekki útilokað þátttöku í vinstristjórn fjölda flokka.

Það er til mikils að vinna fyrir Viðreisn að skýra línurnar. Að svara því hvort hann verði trúr uppruna sínum og vilji stöðugleikastjórn frá miðju, eða kjósi fjölmennan vinstribræðing. Af sögunni má ætla að hið síðarnefnda verði fyrsti kostur ef kallið kemur. Komi ekki fram áætlanir um annað mega kjósendur reikna með að atkvæði til flokksins sé ekkert annað en atkvæði með viðreisn vinstri manna