Bjarni vill endurskipuleggja lífeyriskerfið frá grunni

„Ég held að það sé orðið tímabært að leggja til hliðar í heild sinni þetta lífeyriskerfi sem við höfum haft til þessa og hugsa það upp á nýtt. Ljúka þessari vegferð sem við höfum verið á varðandi almannatryggingar, með þessa bótaflokka og annað. Við breyttum kerfinu verulega árið 2016 en ég tel núna að sá tímapunktur sé kominn að við tökum kerfið upp með rótum og leggjum það til hliðar,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í Bítið á Bylgjunni í morgun. Hlusta má á þáttinn hér.

„Við þurfum að sætta okkur við að það eru of margir sem ekki ljúka starfsævinni með rík lífeyrisréttindi og hugsa þetta þess vegna upp á nýtt, nota skattkerfið annars vegar til að styðja við þessa hópa, auka svigrúm til atvinnuþátttöku án skerðinga, og hins vegar að hætta að líta á þetta sem bætur heldur stuðningskerfi sem byggir á réttindum. Ég er þessa dagana að leggja lokahönd á hugmyndir í þessu efni sem ég mun kynna það innan tíðar,“ sagði fjármálaráðherra.

Bjarni rakti að öðru leyti fyrirkomulag almannatrygginga og samspil þeirra við lífeyrisréttindi og benti hlustendum á vefinn tekjusagan.is þar sem hægt er að skoða þróun eftirlauna í gegnum árin og bera saman mismunand tímabil.

Bjarni ræddi líka um áframhald 200 manna samkomutakmarkana vegna Covid19 og sagði að mikil bólusetning landsmanna hefði gjörbreytt nálgun stjórnvalda á viðfangsefnið. Hann sagði að stjórnvöld vilji ekki grípa til harðari aðgerða en nauðsynlegt er og nú væri verkefnið að finna skynsamlegustu leiðina til að lifa með veirunni. Þar þyrfti m.a. að horfa frekar til tölfræði um veikindi en nýgengi smita.

Innviðauppbygging, samkeppnishæfni landsins, hratt minnkandi atvinnuleysi og sitthvað fleira kom líka til tals í spjalli þeirra Gulla og Heimis við Bjarna.