Að stíga á verðlaunapallinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Það var magnað að sjá þann ár­ang­ur sem Annie Mist Þóris­dótt­ir náði á heims­leik­un­um í cross­fit um þar síðustu helgi. Sér­stak­lega í ljósi þess að hún eignaðist barn fyr­ir ári og hafði þar áður fallið úr leik á sama móti. Fyr­ir svona end­ur­komu, og til að ná þeim ár­angri sem hún náði í ár, þarf mikla kapp­semi, gríðarlegt magn af æf­ing­um, skýr mark­mið en um­fram allt aga og vilja­styrk. Þau Annie Mist, Katrín Tanja, Ragn­heiður Sara, Þuríður Erla og Björg­vin Karl hafa ít­rekað á liðnum árum sýnt okk­ur hversu öfl­ug þau eru, bæði lík­am­lega og and­lega, á þeim vett­vangi þar sem bestu kepp­end­ur heims etja kappi í þess­ari erfiðu íþrótt.

Á sama tíma höf­um við fylgst með ótrú­leg­um ár­angri þeirra sem taka þátt á Ólymp­íu­leik­un­um í Tókýó. Maður verður hug­fang­inn þegar maður les sér til um bak­grunn og sögu margra þeirra íþrótta­manna sem stíga á pall þessa dag­ana. Þar eru magnaðar sög­ur af fólki sem hef­ur orðið á og gert mis­tök, en neit­ar að gef­ast upp og rís upp aft­ur. Sög­ur af fólki sem með aga og vilja­styrk nær nú þeim ár­angri sem það setti sér og vann svo lengi að. Þær sög­ur ættu að vera okk­ur inn­blást­ur á svo mörg­um sviðum.

Við ætt­um öll að stefna að því að ná ár­angri í því sem við tök­um okk­ur fyr­ir hend­ur og þar er íþrótta­fólkið góð fyr­ir­mynd. Það er ekki alltaf auðvelt; það þarf að velja vel hvernig tím­an­um er varið, velja á milli þess sem mann lang­ar að gera og þess sem maður þarf að gera og þannig mætti áfram telja. Ég gef mér að all­ar aukaæf­ing­arn­ar þar sem verið er að gera sama hlut­inn aft­ur og aft­ur hafi ekki alltaf verið skemmti­leg­ar og á köfl­um ef­laust bara mjög leiðin­leg­ar. Allt er þetta þó væn­legt til ár­ang­urs.

Það þurfa all­ir ein­hvern tíma að kljúfa erfiðar hindr­an­ir og það er sjaldn­ast hægt að krefjast þess að ein­hver geri það fyr­ir mann. Að sama skapi þurfa flest­ir að hafa mikið fyr­ir þeim ár­angri sem þeir ná í líf­inu, hvort sem það er að klára nám, finna starf við hæfi, stofna fyr­ir­tæki, koma sér upp heim­ili, ala upp börn og svo fram­veg­is. Það er því virðing­ar­vert að sýna dugnað og þraut­seigju, að leggja sig fram og setja markið hátt. Von­andi ger­um við það flest.

Dugnaður og elja verða ekki búin til á vett­vangi stjórn­mál­anna, en stjórn­mála­menn geta þó ýtt und­ir með þeim sem setja markið hátt. Það er hlut­verk stjórn­mála­manna að tryggja það að fólk geti náð ár­angri í því sem það tek­ur sér fyr­ir hend­ur, meðal ann­ars með því að tryggja réttu innviðina, tryggja það að fólk njóti ár­ang­urs af erfiði sínu og tryggja að all­ir hafi sömu tæki­færi til að fylgja metnaðarfull­um mark­miðum sín­um eft­ir. Þetta snýst ekki bara um það hverj­ir eru á verðlaunap­all­in­um í dag, held­ur hvort fólk eigi þess al­mennt kost að stíga á pall­inn. Þar vilj­um við sjá sem flesta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst 2021.