Arnar Þór Jónsson, frambjóðandi í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi:
Fyrirsögnin hér að ofan er óbein þýðing á aðvörunarorðum C.S. Lewis um „velviljað alræði“. Önnur ummæli sem urðu mér hvatning til að setja þessar línur á blað féllu fyrir stuttu í fésbókarhópnum Heildarmyndinni . Þau voru sett fram af manni sem kvaðst vera hræddari við aðgerðir stjórnvalda gagnvart kórónuveirunni en veiruna sjálfa. Þessar tvær setningar hafa ásótt mig síðustu daga, því mér finnst sérstakt til þess að hugsa að veira sem 99,9% Íslendinga undir sjötugu lifa af – og veldur nú engum eða vægum einkennum hjá 97% smitaðra – skuli verið búin að umturna öllu daglegu lífi okkar, ekki aðeins hérlendis, heldur víðs vegar um heim. Í þessu ljósi má velta því fyrir sér hvort veiran sé í raun stærsta vandamálið eða hvort vandinn liggi mögulega annars staðar, t.d. í undirmönnun í heilbrigðiskerfinu eða að forvörnum sé ábótavant. Þótt grímur komi að litlu ef nokkru gagni við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa þær verið gerðar að hluta daglegs lífs og að skilyrði fyrir aðgengi að verslunum, veitingastöðum o.fl. Gagnsemi þeirra er hugsanlega mest fyrir þá sem vilja deila og drottna, því grímurnar eru stöðug áminning um það að við séum heilsufarsógn hvert við annað.
Tækniveldi í stað lýðveldis?
Þetta ástand grefur undan trausti í samfélagi okkar. Í sögulegu samhengi er slík þróun fyrsta skrefið í átt til eyðileggingar lýðræðislegra stjórnmála. Frammi fyrir þessu er þörf á því að við höfum allan vara á, því á sama tíma og lýðræðinu hnignar rís upp tækniveldi, þ.e. stjórnarfyrirkomulag þar sem sérfræðingar og vísindamenn fara með völd. Eitt meginmarkmið tækniveldisins er að halda völdum. Pólitísk stefnumörkun er ekki tæknilegt viðfangsefni. Sérfræðingar og vísindamenn byggja á þröngu sérsviði fremur en heildarmynd. Svið náttúruvísinda og siðfræði skarast svo sjaldan að hætt er við að síðarnefnda sviðið verði út undan við „vísindalega ákvarðanatöku“, sbr. þau ummæli Werners von Braun að hann velti ekki fyrir sér hvar kjarnorkusprengjurnar lentu: „That’s not my department.“ Siðmenntað samfélag stýrir því hvernig tækni og vísindum er beitt. Sagan sýnir að þegar þessu er snúið við, þ.e. þegar tækni og vísindi eru farin að stýra samfélaginu, stendur vá fyrir dyrum.
Vísindi og tækni eru ekki eitt og hið sama: Náttúruvísindin beita sínum aðferðum við rannsóknir og skila af sér þekkingu. Þegar menn nýta sér þá þekkingu verður til tækni. Menn mega ekki fara að trúa á tæknina og tilbiðja hana. Túlkun þekkingar er stundum álitamál og á þeim grunni geta menn verið ósammála um hvaða leið beri að fara. Vísindin tala samkvæmt þessu ekki einni röddu og hægt er að velja fleiri en eina leið á grundvelli vísindalegrar kenningar. Það er því blekking að vísindaleg ákvarðanataka standi utan eða ofan við pólitík. Hér sem annars staðar þarf að skilgreina markmið og velja leið til að ná því marki. Þar koma stjórnmál óhjákvæmilega til skjalanna, þ.e. við að skilgreina ætlunarverk og leiðir að þeim markmiðum. Við getum gert margt á grundvelli vísinda sem við þó veljum að gera ekki, t.d. að skera á taugabrautir í heila geðsjúkra, stunda kynbætur á mönnum, beita efnavopnum, o.s.frv. Meðan við viljum kenna stjórnmálin við lýðræði leyfist okkur ekki að afhenda tæknimönnum félagslega og pólitíska stefnumörkun. Samt stöndum við nú frammi fyrir því að tæknimenn hafa fengið allt of mikil völd. Í reynd er verið að fela þeim að stjórna samfélaginu. Þar sem þeir hafa þó takmarkaðar forsendur til að takast á við það verkefni hafa þeir ákveðið að fara auðveldu leiðina, þ.e. að stjórna einstaklingsbundinni hegðun með fyrirmælum sem seilast sífellt lengra inn í einkalíf fólks og þurrka þannig út hefðbundin mörk hins opinbera og hins persónubundna. Við slíkar aðstæður er hætt við að borgaralegt frelsi verði ofríki að bráð.
Harðræði í stað lýðræðis?
Þótt þessir stjórnarhættir feli í sér ógn við frjálslynt lýðræði fer sú ógn furðulega dult, því auðvelt er að láta blekkjast af yfirlýsingum um að þetta sé allt gert í nafni „umhyggju“, „framþróunar“, „lýðheilsu“, „lýðræðis“ eða jafnvel „frjálslyndis“. Í því samhengi má minna á að framþróun og íhald eru ekki ósamrýmanleg sjónarmið. Einhvers konar jafnvægi er sjálfsagt farsælast þar sem annars staðar, þ.e. framþróun á grunni nýjustu þekkingar án þess að fórna hinu góða, sanna og fagra. Hlutverk okkar er að verja mannlega reisn og frelsi mannsins. Í því felst m.a. að við eigum ekki að láta efnið drottna yfir andanum.
Hinn kaldi veruleiki er sá að stjórnarfarið hefur þokast, í smáum skrefum, frá klassísku frjálslyndi í átt til gervifrjálslyndis í anda áðurnefndrar aðvörunar C.S. Lewis, þar sem sérvaldir handhafar sannleikans telja sig á grundvelli góðvilja, menntunar og vísinda geta þvingað almenning til undirgefni og undanbragðalausrar hlýðni. Fyrirmyndarríkið (útópían) mun þá rísa þegar menn hætta að hugsa sjálfstætt, afsala sér eigin vilja og hætta að efast. Forsenda þess að hið „fullkomna samfélag“ verði til er þá að menn sýni algjöra samstöðu, gangi í takt við opinber fyrirmæli og hlýði.
Til lesandans
Er það draumur þinn, lesandi góður, að láta aðra hafa vit fyrir þér frá vöggu til grafar? Eða viltu fá að lifa sjálfstætt, á þínum forsendum, og læra með því að prófa þig áfram – og gera mistök? Klassískt frjálslyndi, öfugt við gervifrjálslyndi, grundvallast á þeirri reynslu kynslóðanna að skynsemi sérhvers manns eru takmörk sett. Meðan við erum minnug þess að við höfum ekki höndlað hinn endanlega sannleika verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að forðast hroka og sýna frekar auðmýkt gagnvart eigin takmörkunum og umburðarlyndi gagnvart takmörkunum samferðafólks okkar í sannleiksleitinni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2021.