Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Fyr­ir skömmu fjallaði ég um breyt­ing­ar­reglu stjórn­ar­skrár­inn­ar í grein hér í blaðinu. Ann­ars veg­ar vitnaði ég til um­fjöll­un­ar Kristrún­ar Heim­is­dótt­ur um mik­il­vægi nú­gild­andi reglu og hins veg­ar vék ég að til­lögu nokk­urra stjórn­ar­and­stöðuflokka á þingi um breyt­ing­ar í þessu sam­bandi. Ég tel ríkt til­efni til að ræða þetta nán­ar, enda er við því að bú­ast að umræðurn­ar haldi áfram í aðdrag­anda kosn­inga.

Nú­gild­andi regla hef­ur reynst vel

Áður en lengra er haldið vil ég ít­reka það sjón­ar­mið, að nú­gild­andi breyt­ing­ar­regla hafi reynst vel. Hún fel­ur í sér inn­byggða varnagla gagn­vart því að stjórn­ar­skránni sé breytt í mikl­um ágrein­ingi, án full­nægj­andi und­ir­bún­ings eða í fljótræði, en er þó á sama tíma þannig að stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar eru vel mögu­leg­ar, eins og fjöl­mörg dæmi sanna. Ef tal­in yrði ástæða til að breyta breyt­ing­ar­á­kvæðinu væri því grund­vall­ar­atriði að viðhalda ákveðnum þrösk­uld­um, til að tryggja sömu meg­in­sjón­ar­mið um málsmeðferð, umþótt­un­ar­tíma og hvata til víðtækr­ar sam­stöðu, en þó auðvitað þannig að vandaðar stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar verði áfram raun­hæf­ur mögu­leiki.

Til­efni til breyt­inga á ákvæðinu?

Í gagn­rýni á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag hafa þrenns kon­ar sjón­ar­mið einkum verið færð fram. Í fyrsta lagi er því haldið fram að nú­gild­andi fyr­ir­komu­lag sé of þungt í vöf­um og feli í sér of mikl­ar hindr­an­ir. Í öðru lagi að regl­an um að rjúfa skuli þing og efna til kosn­inga strax að lok­inni fyrri samþykkt Alþing­is búi til of mikla póli­tíska pressu í lok kjör­tíma­bils og sé þannig sjálf­stætt vanda­mál þegar kem­ur að því að leiða stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar til lykta. Í þriðja lagi er svo oft nefnt, að eðli­legt sé að þjóðin eigi að eiga beina aðkomu að end­an­legri af­greiðslu stjórn­ar­skrár­til­lagna og best fari á því á að því það ger­ist með því að úr­slit­in ráðist í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Það á að vera erfitt að breyta stjórn­ar­skrá

Eins og áður hef­ur komið fram get ég alls ekki tekið und­ir að ferlið sam­kvæmt nú­gild­andi reglu sé of þungt í vöf­um eða geri stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar óeðli­lega erfiðar. Til þess að stuðla að stjórn­skipu­legri festu þarf að vera erfiðara að breyta stjórn­ar­skrá en öðrum lög­um og það er í sjálfu sér æski­legt en ekki óæski­legt að það ferli sé þannig úr garði gert að breyt­ing­arn­ar krefj­ist meiri aðdrag­anda og fleiri skrefa í málsmeðferð en al­mennt ger­ist um laga­setn­ingu. Sam­hliða er auðvitað mik­il­vægt að málsmeðferðarregl­urn­ar hvetji til sam­stöðu um breyt­ing­ar frek­ar en sundr­ung­ar.

Varnagla má ekki fjar­lægja nema aðrir komi í staðinn

Varðandi þá rök­semd, að æski­legt sé að rjúfa tengsl stjórn­ar­skrár­breyt­inga við þingrof og kosn­ing­ar, er mik­il­vægt að horfa á sam­hengi hlut­anna. Nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag fel­ur það í sér, að þing­meiri­hluti, sem vill breyta stjórn­ar­skrá, verður að vera til­bú­inn til þess þegar í stað að bera verk sín und­ir kjós­end­ur og afla sér umboðs til starfa á nýju kjör­tíma­bili, meðal ann­ars til að af­greiða stjórn­ar­skrár­breyt­ing­arn­ar aft­ur í óbreyttri mynd. Þetta hef­ur meðal ann­ars þau áhrif, að dregið er úr lík­um á um­deild­um stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um. Jafn­vel þótt kosn­ing­ar snú­ist um margt annað en stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar þá er engu að síður ljóst, að meiri­hluti þings myndi að jafnaði hika við að fara í stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar, sem gætu mætt veru­legri and­stöðu kjós­enda í kosn­ing­um, og að kraf­an um að nýtt þing samþykki til­lög­urn­ar óbreytt­ar að kosn­ing­um lokn­um fel­ur líka í sér rík­an hvata til víðtækr­ar sam­stöðu; sam­stöðu sem get­ur hald­ist milli kjör­tíma­bila. Ef þess­um tengsl­um við þingrof og kosn­ing­ar er kippt úr sam­bandi er óhjá­kvæmi­legt annað en að setja í staðinn önn­ur skil­yrði, sem lík­leg eru til að stuðla að sömu mark­miðum. Þar væri meðal ann­ars hægt að hugsa sér kröfu um auk­inn meiri­hluta á þingi og/​eða þjóðar­at­kvæðagreiðslu, þar sem gerð væri krafa um lág­marksþátt­töku kjós­enda eða lág­marks­stuðning við viðkom­andi breyt­ing­ar. Það má með öðrum orðum ekki kippa þess­um varúðarregl­um úr sam­bandi öðru­vísi en að aðrar, jafn­góðar eða betri, komi í staðinn.

Ein­föld þjóðar­at­kvæðagreiðsla næg­ir ekki

Af þeim sjón­ar­miðum, sem færð hafa verið fram gegn nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi, hef ég mesta samúð með hug­mynd­inni um að breyt­ing­ar­ferlið eigi að enda á bind­andi þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Nú er það auðvitað svo, að í nú­ver­andi breyt­ing­ar­reglu felst að þjóðin hef­ur, eða get­ur haft, úr­slita­áhrif á það hvort stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar nái fram að ganga eða ekki. Þegar stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar eru háðar samþykki tveggja þinga með þingrofi og kosn­ing­um á milli, er auðvitað verið, að minnsta kosti með óbein­um hætti, að leita til kjós­enda og fá fram af­stöðu til breyt­ing­anna. En það má líka gera með bein­um hætti í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. En þá væri að mínu mati al­veg af­drátt­ar­laus krafa að annaðhvort væri kraf­ist lág­marksþátt­töku í at­kvæðagreiðslunni eða ákveðins lág­marks­stuðnings við breyt­ing­arn­ar.

Leið stjórn­ar­and­stöðunn­ar um ein­fald­an meiri­hluta á þingi og ein­falt samþykki í þjóðar­at­kvæðagreiðslu, án frek­ari skil­yrða, er að mínu mati al­veg ófær í þessu sam­bandi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2021.