Með frelsið að leiðarljósi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Til að beita megi úrræðum sótt­varna­laga þarf sjúk­dóm­ur að geta valdið far­sótt­um og ógnað al­manna­heill. Eft­ir því sem lengra líður frá upp­hafi far­ald­urs og þekk­ing­in verður meiri verður að gera rík­ari kröf­ur til stjórn­valda um að gæta meðal­hófs.

Aðgerðir mega hvorki ganga lengra né vara leng­ur en til­efni er til. Við verðum stöðugt að end­ur­meta aðgerðir, einkum og sér í lagi eft­ir vel heppnaðar og víðtæk­ar bólu­setn­ing­ar hér­lend­is. Þegar 90% full­orðinna ein­stak­linga eru orðin bólu­sett þarf að slá nýj­an takt í umræðuna, end­ur­meta aðstæður og leggja grunn að eðli­legu lífi á ný.

Sótt­varnaaðgerðir hafa hingað til gengið vel, en þær nýj­ustu komu eðli­lega flatt upp á marga. Gripið var til tíma­bund­inna aðgerða vegna mik­ill­ar út­breiðslu smita í sam­fé­lag­inu án þess að gengið væri lengra en nauðsyn bar til. Eigi að síður er um íþyngj­andi ráðstaf­an­ir að ræða. Ráðstaf­an­ir sem við ætl­um ekki að búa við til lengri tíma. Aðgerðirn­ar gilda til 13. ág­úst og var gripið til þeirra vegna óvissu um al­var­leg veik­indi bólu­settra að mati sótt­varna­lækn­is. Á þess­um tíma verður aflað upp­lýs­inga um hvernig og hve mikið bólu­sett­ir veikj­ast. Það er ánægju­legt að sjá að 97% af þeim sem nú smit­ast séu nær ein­kenna­laus­ir. Með því er stærsta áfang­an­um náð, enda mark­miðið ekki að telja smit til lengri tíma – held­ur að koma í veg fyr­ir út­breidd al­var­leg veik­indi og sporna við álagi á heil­brigðis­kerfið. Í aðgerðum gegn far­aldr­in­um verða mark­miðin að vera skýr. Ekki má hringla með marklín­una. Nú þegar ár­ang­ur­inn verður met­inn af bólu­setn­ing­um sjá­um við von­andi þær já­kvæðu niður­stöður sem stefnt var að. Við höf­um alltaf stefnt að því að bólu­setn­ing­arn­ar geri okk­ur kleift að færa dag­legt líf okk­ar allra til eðli­legs horfs með frelsið að leiðarljósi.

Ég vona að stjórn­ar­and­stöðunni auðnist ekki að slíta í sund­ur þá ein­ingu sem ríkt hef­ur meðal lands­manna í bar­átt­unni gegn veirunni. Talað er um stefnu­leysi á sama tíma og virt­ir sér­fræðing­ar hrósa rík­is­stjórn­inni fyr­ir vand­virkni og hóf­semi. Gagn­rýn­in snýst öðru frem­ur um að of fljótt hafi verið farið í aflétt­ing­ar og í að láta af skimun bólu­settra inn í landið. Í þessu felst viðsnún­ing­ur af hálfu stjórn­ar­and­stöðunn­ar, enda byggðu ákv­arðan­irn­ar á til­lögu sótt­varna­lækn­is. Hingað til hafa þess­ar sömu radd­ir lagt mikið upp úr því að fylgja til­lög­um hans í einu og öllu. Sum­ir leiðtog­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar mæla fyr­ir því að „loka land­inu“, með til­heyr­andi stór­auknu at­vinnu­leysi og tekjutapi sam­fé­lags­ins. Minna fer fyr­ir til­lög­um um aðrar leiðir til að skapa störf og um leið gjald­eyr­is- og skatt­tekj­ur til að halda áfram úti okk­ar öfl­ugu heil­brigðis-, mennta- og al­manna­trygg­inga­kerf­um. Gal­op­in landa­mæri eru ekki skamm­ar­yrði, held­ur eðli­leg­ur hluti þess að búa í frjálsu sam­fé­lagi og einn megin­gr­und­völl­ur hag­sæld­ar í okk­ar litla og af­skekkta landi. Sömu stjórn­mála­leiðtog­um finnst ekk­ert til­töku­mál að sett­ar verði á mjög víðtæk­ar tak­mark­an­ir á frelsi al­menn­ings, jafn­vel til langr­ar framtíðar. Upp­hróp­an­ir af því tagi lýsa upp­gjöf og úrræðal­eysi og fá von­andi eng­an hljóm­grunn meðal kjós­enda í haust. Eins og Kári Stef­áns­son lýsti ágæt­lega á dög­un­um, þá verðum við að geta haldið áfram að lifa í þessu landi með góðu móti.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2021.