Gagnrýnar spurningar mikilvægar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var gestur Andrésar Magnússonar í þættinum Dagmálum í vikunni.

Í viðtalinu var farið um víðan völl og m.a. rætt um kjörtímabilið sem er að líða, rík­is­stjórn­ar­sam­starfið, sóttvarnaaðgerðir, rík­is­fjár­mál og rekstur ÁTVR.

Aðspurður um stöðuna í sóttvarnarmálum innanlands sagði Bjarni að sér hafi þótt takast vel upp heilt yfir.

„Mér finnst hafa verið mjög vel haldið utan um samtalið við ríkisstjórnarborðið og við höfum komið samheldin út í þessari lotu á þessu rúma ári sem við höfum gengið í gegnum. Oft hafa verið hvöss skoðanaskipti, þó það nú væri, en mér finnst hafa tekist vel til.“

Bjarni lagði áherslu á að mikilvægt væri að spyrja gagnrýninna spurninga við töku íþyngjandi ákvarðana.

„Við höfum haft innan okkar raða efasemdamenn sem spyrja spurninga og mér finnst það gott […] að við fáum aðhald, ríkisstjórnin fái aðhald og menn eiga ekki að veigra sér við erfiðum spurningum. Til þess að byggja upp eitthvað traust þurfum við að taka öll þessi álitamál upp á borðið og reyna að svara þeim.“

Þá sagði Bjarni að ekki væri rétt að halda því fram að ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu verið tregir í taumi þegar kæmi að sóttvarnarmálum. Þvert á móti hafi heilbrigðisráðherra haft nokkuð breiðan stuðning við töku ákvarðana innan ríkisstjórnarinnar. Varðandi þær tillögur sem heilbrigðisráðherra hafi lagt til í vikunni hafi þó verið rétt að velta upp stórum spurningum innan ríkisstjórnarinnar varðandi framhald faraldursins.

„Það eru ekki tillögurnar núna sem slíkar sem verið er að leggja til, þetta er ekki mjög íþyngjandi, heldur miklu frekar á hvaða braut við erum ef við erum farin að efast um að bólusetningin dugi til að vernda heilsu fólks í þeim mæli sem máli skiptir. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega þar, þó að óvissan sé mikil. […]“

Bjarni sagði að staðan nú eftir að svo stór hluti fullorðinna hefur verið bólusettur væri allt önnur en áður í faraldrinum.

„Tölurnar sem eru að birtast frá öðrum löndum eru allar á einn veg, það er langt því frá sama fylgni alvarlegra veikinda, innlagna á spítala og dauðsfalla í hlutfalli við smit eins og áður var, þ.e. áður en menn náðu þessum árangri í bólusetningum“