Góð lesning fyrir frambjóðendur til þings

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:  

Sér­fræðing­ar Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD) segja að ís­lensk stjórn­völd hafi brugðist djarf­lega við efna­hags­leg­um af­leiðing­um kór­ónu­veirunn­ar en um leið beitt sveigj­an­leika í aðgerðum. Þá hafi þegar verið mörkuð stefna til að tryggja sjálf­bærni rík­is­fjár­mála til lengri tíma að lokn­um far­aldr­in­um.

Í nýrri skýrslu OECD um ís­lenskt efna­hags­líf, sem kynnt var í síðustu viku, seg­ir að þrátt fyr­ir þungt högg af völd­um kór­ónu­veirunn­ar hafi aðgerðir, jafnt á sviði rík­is­fjár­mála og pen­inga­mála, verið ár­ang­urs­rík­ar. Á blaðamanna­fundi sagði Al­varo S. Pereia, for­stöðumaður hagrann­sókna OECD, að ís­lenskt efna­hags­líf væri á góðum vegi til efna­hags­legr­ar end­ur­reisn­ar eft­ir kór­ónukrepp­una, fyrst og fremst vegna efna­hagsúr­ræða stjórn­valda. OECD tel­ur að hag­vöxt­ur geti orðið meiri á næst­unni en áður var reiknað með – 2,2% á þessu ári og 4,7% á því næsta.

Ágætt vega­nesti

Í aðdrag­anda kosn­inga er skýrsla OECD ágætt vega­nesti fyr­ir stjórn­ar­flokk­ana. En skýrsl­an er annað og meira en yf­ir­lit eða ein­kunn­ar­gjöf fyr­ir hvernig staðið hef­ur verið að verki í glím­unni við efna­hags­lega erfiðleika með ár­ang­urs­rík­um hætti – og það með betri hætti en flest­ar aðrar þjóðir.

Skýrsl­an varp­ar ljósi á þá gríðarlegu mögu­leika sem við Íslend­ing­ar eig­um til að sækja fram og bæta lífs­kjör og lífs­gæði allra lands­manna enn meira á kom­andi árum. En kerf­is­læg­ir þætt­ir koma í veg fyr­ir að við get­um gripið öll tæki­fær­in og búið til önn­ur.

OECD bend­ir á ýmsa ágalla, sam­keppn­is­hindr­an­ir og áskor­an­ir sem við þurf­um að tak­ast á við á kom­andi árum. Auðvitað er sumt af því sem bent er á ekki óum­deil­an­legt frem­ur en annað, en flest er sett fram af yf­ir­veg­un og með góðum rök­stuðningi. Þeir sem sækj­ast eft­ir kjöri í alþing­is­kosn­ing­um í sept­em­ber næst­kom­andi, gerðu margt vit­laus­ara en að fara vand­lega yfir skýrsl­una sem er rétt liðlega 100 blaðsíður (að meðtöld­um sér­stök­um kafla um lofts­lags­mál).

Hindr­an­ir í veg­in­um

Ein helsta áskor­un sem við Íslend­ing­ar þurf­um að tak­ast á við er að auka fram­leiðni á öll­um sviðum, jafnt í op­in­bera geir­an­um sem og í at­vinnu­líf­inu öllu. Strang­ar reglu­gerðir kæfa sam­keppni. Hindr­an­ir fyr­ir nýja inn­lenda eða er­lenda aðila inn á markað eru mikl­ar og það kem­ur í veg fyr­ir sam­keppni. Þung stjórn­sýslu­byrði og um­fangs­mikl­ar og oft flókn­ar leyf­is­veit­ing­ar og ley­fis­kerfi virka sem vörn fyr­ir þá sem eru fyr­ir á fleti en draga úr frum­kvöðlum og gera sprota­fyr­ir­tækj­um erfitt fyr­ir.

Árið 2019 sömdu stjórn­völd við OECD um að gera sjálf­stætt sam­keppn­ismat á reglu­verki sem bygg­inga­starf­semi og ferðaþjón­ustu er gert að starfa eft­ir. Matið var unnið í sam­vinnu við Sam­keppnis­eft­ir­litið. Niðurstaðan sem var kynnt síðasta haust var slá­andi. Bent var á 676 sam­keppn­is­hindr­an­ir í reglu­verki þess­ara tveggja starfs­greina, sem ætti að af­nema. Með því sé hægt að gera um­hverfið sveigj­an­legra fyr­ir viðkom­andi at­vinnu­grein­ar, skapa fleiri störf og auka fram­leiðni og vöxt í hag­kerf­inu á næstu árum. Nái til­lög­urn­ar fram að ganga gæti lands­fram­leiðsla auk­ist um 32 millj­arða á ári. Bygg­ing­ariðnaður og ferðaþjón­usta eru inn­an við 20% lands­fram­leiðslunn­ar. Ef til vill er staðan í þess­um tveim­ur at­vinnu­grein­um verri en á öðrum sviðum. En það virðist ljóst að auk­in fram­leiðni, jafnt hjá hinu op­in­bera og einkaaðilum, af­nám sam­keppn­is­hindr­ana og ein­föld­un reglu­verks geta bætt hag lands­manna um á annað hundrað millj­arða á ári (og lík­lega gott bet­ur).

Traust­ir fæt­ur, en

Íslenskt sam­fé­lag stend­ur í flestu á traust­um grunni, þótt ým­is­legt þurfi að lag­færa. Jöfnuður er óvíða meiri inn­an OECD en á Íslandi. Eft­ir fjár­málakrepp­una hækkuðu lægstu laun hlut­falls­lega meira en hæstu laun og það hef­ur aukið jöfnuð enn frek­ar. Vel­ferðar­kerfið og þar með talið líf­eyri­s­kerfið er byggt upp með þeim hætti að dregið er enn frek­ar úr ójöfnuði, að mati OECD. Aðgang­ur að mennt­un og heil­brigðisþjón­ustu stend­ur öll­um til boða óháð efna­hag. Lít­il tengsl virðast vera á milli fé­lags­legr­ar og efna­hags­legr­ar stöðu ann­ars veg­ar og fram­gangs í mennt­un eða heil­brigðis­kerfi hins veg­ar, ólíkt flest­um öðrum lönd­um OECD.

Um­bæt­ur á skatt­kerf­inu síðustu ár hafa verið skyn­sam­ar að mati OECD. Þær hafi ýtt und­ir ný­sköp­un og þróun og létt skatt­byrði á tekju­lág heim­ili. Jaðarskatt­ar séu hins veg­ar enn of mikl­ir hjá ein­stak­ling­um. Bent er á að háir jaðarskatt­ar geti unnið gegn auknu jafn­rétti á vinnu­markaði.

Pott­ur brot­inn

Ábend­ing­ar (sum­ir gætu sagt gagn­rýni) OECD eru af ýms­um toga. Bent er t.d. á nauðsyn þess að stokka upp trygg­inga­kerfi ör­yrkja og þá fyrst og síðast að styrkja virkniúr­ræði til að byggja und­ir at­vinnuþátt­töku. Leggja þarf enn meiri rækt við ra­f­ræna op­in­bera stjórn­sýslu en þar erum við Íslend­ing­ar eft­ir­bát­ar margra landa, en gæt­um verið fremst­ir. Áætl­un um átak í þess­um efn­um ligg­ur þegar fyr­ir. Meiri rækt þarf að setja í upp­bygg­ingu lít­illa sprota- og ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja. Beina op­in­ber­um sjóðum sem sitja á áhættu­fjár­magni í aukn­um mæli í sam­starf við einka­sjóði sem hafa meiri getu og þekk­ingu til að styðja fyr­ir­tæk­in.

En framtíðin bygg­ist á mennt­un og gæðum henn­ar. Skipu­lag mennta­kerf­is­ins verður að vera með þeim hætti að hægt sé að mæta sí­breyti­leg­um þörf­um sam­fé­lags­ins. Og þar er pott­ur brot­inn að mati OECD sem bend­ir á að gæði mennt­un­ar í grunn- og fram­halds­skól­um hafi minnkað á síðustu árum. Þá sé kenn­ur­um ekki umb­unað í sam­ræmi við reynslu og frammistöðu. Mennt­un þeirra virðist ekki hafa fylgt kröf­um nýrra tíma.

Há­skóla­mennt­un veld­ur ójafn­vægi á vinnu­markaði þar sem tengsl milli skóla og at­vinnu­lífs­ins séu veik. Fjár­mögn­un­ar­mód­el há­skóla hef­ur leitt til þess að skól­arn­ir ein­beita sér frem­ur að því að inn­rita sem flesta nem­end­ur í stað þess að tryggja gæði náms og frammistöðu nem­enda.

Starfs­mennt­un fær enn og aft­ur fall­ein­kunn hjá OECD og hún sögð vanþróuð. Hlut­falls­lega færri sækja sér slíka mennt­un hér á landi en í nokkru öðru Evr­ópu­ríki. Námið tak­mark­ast við hefðbundn­ar tækni- og hand­verks­stétt­ir. Skóla­bundið og starfs­nám sé illa samþætt og nem­end­um standi fáar leiðir til há­skóla­náms til boða.

Í sjálfu sér eru flest­ar ábend­ing­ar OECD ekki nýj­ar. Við flest höf­um lengi vitað eða haft nokkra hug­mynd um hver verk­efn­in eru á kom­andi árum – þekkj­um flesta brotnu pott­ana. Að ein­hverju leyti skort­ir póli­tísk­an vilja (eða kjark) til að hefjast handa við að lag­færa það sem miður fer. Að ein­hverju leyti er ástæðan djúp­stæð andstaða við að ein­falda reglu­verk at­vinnu­lífs­ins og þætta bet­ur sam­an mennt­un og þarf­ir at­vinnu­lífs­ins. Sú andstaða á sér ann­ars veg­ar ræt­ur í andúð á at­vinnu­líf­inu og hins veg­ar litl­um skiln­ingi á því hvernig verðmæta­sköp­un á sér stað – verðmæta­sköp­un sem stend­ur und­ir sam­fé­lagi vel­ferðar.

Niðurstaða kosn­ing­anna í sept­em­ber ræður mestu um hvort mögu­legt verður að brjót­ast út úr póli­tískri sjálf­heldu sem hef­ur hindrað ár­ang­urs­ríka upp­stokk­un í reglu­verki at­vinnu­lífs­ins og leggja styrk­ari grunn und­ir aukna vel­sæld.

Morgunblaðið 14. júlí, 2021