Velferðin – Nanna Briem, forstöðumaður geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans

Fimmti þáttur um VELFERÐINA; þættir um heilbrigðis- og velferðarmál Hvers vegna þurfum við nýtt geðheilbrigðissjúkrahús ?

Í þessum fimmta þætti ræðir Þorkell Sigurlaugsson við Nönnu Briem, forstöðumann geðheilbrigðisþjónustu Landspítala.

Á aðalfundi landsamtakanna Spítalinn okkar www.spitalinnokkar.is flutti Nanna áhugaverðan fyrirlestur m.a um húsnæðismál geðþjónustu Landspítala. Þorkell fékk Nönnu til að renna yfir það helsta og nokkrar glærur þar sem hún fjallaði m.a. um húsnæðismál.

Fyrst fór Nanna yfir umsvif geðþjónustu Landspítala bæði hvað varðar þjónustu almennt, fjölda sjúklinga o.fl., helstu starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og lýsti hún því hvernig húsnæði geðdeildar, hvort sem er á Kleppi eða við Hringbraut, er komið til ára sinna og hvernig staðan er hjá nágrannaþjóðunum hvað þetta varðar. Tók hún sem dæmi, áhugaverðar teikningar af nýjum geðspítölum erlendis. Viðhorfið til húsnæðismála og reksturs er talsvert öðru vísi í dag en var fyrir nokkrum áratugum. Meiri áhersla er lögð á umhverfið, fjölbreytta aðstöðu, hreyfingu og aðstöðu fyrir fjölskylduna og gesti.

Fram kom hjá Nönnu að hún hefur áhyggjur af stöðunni, bæði til skemmri og lengri tíma, þá sérstaklega hvað varðar húsnæðismálin. Áhugaverður þáttur með góð skilaboð inn í stefnumótun Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum.

Þátturinn var tekinn upp 30. júní 2021.