Við erum á réttri leið

Í dag var ný skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland birt en skýrslur sem þessi eru gefnar út á tveggja ára fresti. Þar kemur fram að íslenskt efnahagsumhverfi hafi orðið fyrir miklu áfalli í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar en reiknað sé með viðsnúningi með kröftugum vexti útflutnings, einkum ferðaþjónustu.

Á blaðamannafundi kynnti Alvaro S. Pereira, forstöðumaður skrifstofu efnahagsmála aðildarlanda OECD, helstu niðurstöður skýrslunnar ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Auk hefðbundinnar umfjöllunar skýrslunnar um íslensk efnahagsmál er sérstaklega fjallað um stuðning hins opinbera við nýsköpun og aðgerðir í loftslagsmálum.

Að mati OECD hefur vel gengið í baráttunni við faraldurinn og viðsnúningur er framundan í efnahagslífinu. Þá hefur hagkerfið sýnt viðnámsþrótt með öflugri einkaneyslu og vexti í öðrum útflutningi en ferðaþjónustu á tímum heimsfaraldurs. Enn fremur telur OECD að peninga- og fjármálastefna hafi stutt vel við hagkerfið og rétt sé að viðhalda þeim stuðningi enn um sinn en að um leið og aðstæður leyfa þurfi að auka aðhaldið með það að markmiði að stöðva skuldasöfnun líkt og stefnt sé að í gildandi fjármálaáætlun.

Nánari samantekt á áherslum og tilmælum OECD í skýrslunni má sjá hér.