Pólitískt bandalag lýðræðisríkja

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku kom glögglega fram mikilvægi hinnar pólitísku hliðar á samstarfi aðildarríkjanna. Það snýst ekki aðeins um hernaðargetu eða varnarviðbúnað. Á fundinum var lögð sérstök áhersla á þýðingu pólitískrar umræðu og samstarfs við undirbúning ákvarðana, m.a. til að takast á við nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum. Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var samþykkt á fundinum sem og ný netöryggisstefna.

Hernaðarlegi þáttur samstarfsins er vissulega þýðingarmikill en eftir fall Berlínarmúrsins fyrir 30 árum og með fjölgun aðildarríkjanna í kjölfarið hefur hin pólitíska hlið samstarfsins fengið aukið vægi. Ný lýðræðisríki urðu til á rústum kommúnismans og skipuðu sér í flokk með ríkjum Atlantshafsbandalagsins þar sem grunngildi stofnsáttmálans frá 1949 voru og eru enn í fullu gildi; þ.e. friður, varðveisla frelsis og menningar, lýðræðislegir stjórnarhættir, einstaklingsfrelsi, lög og réttur.

Samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum lýtur varnarsamstarfið að því að verja og varðveita grunngildi sáttmálans en einnig önnur mikilvæg verðmæti líkt og menningarlegt, viðskiptalegt og efnahagslegt samstarf ríkjanna. Eins og heiti samningsins felur í sér er markmiðið að tryggja öryggi samgönguleiða og hvers kyns samskipta á milli aðildarríkjanna í Norður-Ameríku annars vegar og í Evrópu hins vegar.

Fyrir gömul og ný aðildarríki skiptir miklu máli sú sameiginlega skuldbinding í samstarfinu að árás á eitt þeirra jafngildi árás á þau öll. Þýðingarmest fyrir þá skuldbindingu er sú staðreynd, sem var undirstrikuð í yfirlýsingu leiðtogafundarins, að Bandaríkin eru aðilar að henni.

Andstæðingum Atlantshafsbandalagsins virðist á stundum yfirsjást að pólitískur kjarni samstarfsins er forsenda varnarviðbúnaðarins. Þeir vilja einblína á hernaðarlega samstarfið. Á tímum „kalda stríðsins“ lögðu þeir að jöfnu hernaðarumsvif Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar. Þeir gerðu ekki greinarmun á yfirgangi Sovétríkjanna gagnvart ríkjum Austur-Evrópu og vörnum vestrænna ríkja gagnvart þeirri ógn. Varsjárbandalagið laut að því að halda ófrjálsum þjóðum undir járnhæl Sovétríkjanna á meðan Atlantshafsbandalagið veitti aðildarríkjum sínum skjól til að þróast og eflast.

Jafnréttismál voru meðal þeirra nýju pólitísku áherslumála sem rædd voru á leiðtogafundinum í síðustu viku. Það eru nýjar og mikilsverðar áherslur í varnarsamstarfi aðildarríkjanna. Í yfirlýsingu fundarins segir að virk þátttaka kvenna sé undirstöðuatriði í öryggis- og varnarmálum. Gæta beri jafnræðissjónarmiða við ákvörðunartöku og framkvæmd verkefna á vegum bandalagsins. Það er mikil framför, bæði fyrir bandalagið og fyrir jafnréttismálin.

Morgunblaðið 22. júní, 2021.