Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lokið við að halda prófkjör í öllum kjördæmum landsins til uppröðunar á framboðslistum fyrir komandi þingkosningar. Síðasta prófkjörið fór fram um nýliðna helgi í Norðvesturkjördæmi.
Alls kusu 20.771 manns í prófkjörunum, en það jafngildir 10,3% allra þeirra sem kusu í þingkosningunum árið 2017. Sjálfstæðisflokkurinn er stoltur af þessum mikla áhuga á prófkjörum flokksins. Enginn annar flokkur á Íslandi stillir framboðslistum sínum upp með jafn lýðræðislegum hætti og með aðkomu svo stórs hluta kjósenda landsins. Öllum þeim sem kusu í prófkjörunum eru færðar þakkir fyrir að gera prófkjör Sjálfstæðisflokksins að einni allsherjar lýðræðisveislu sem eftir er tekið.
Sjálfstæðisflokkurinn er fjöldahreyfing
Þátttakan í prófkjörunum sýnir svo um munar að Sjálfstæðisflokkurinn er fjöldahreyfing. Það sannaði sig einnig í öllum þeim gríðarmörgu sjálfboðaliðum sem komu að framkvæmd prófkjaranna. Á sjöunda hundrað sjálfboðaliða störfuðu við þau með ýmsum hætti, í yfirkjörstjórnum, í undirkjörstjórnum, bæði í kosningu utan kjörfundar og á kjörfundi, við talningu atkvæða og í fleiri störfum. Þeim öllum eru færðar þakkir fyrir frábær störf og þeirra þátt í að tryggja að framkvæmd allra prófkjara var jafn glæsileg og hnökralaus og raun bar vitni.
Öflugir framboðslistar að verða til í öllum kjördæmum
Sjálfstæðisflokkurinn mun tefla fram sterku og fjölbreyttu liði í kosningunum í haust. Þessa dagana eru glæsilegir framboðlistar að verða til í öllum kjördæmum landsins. Þrjár konur og þrír karlar leiða listana, en þeir hafa sjaldan verið jafn fjölbreyttir þegar horft er til aldurs, reynslu og annarra þátta.
Í Suðvesturkjördæmi leiðir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, framboðslistann. Í Reykjavíkurkjördæmum leiða Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir listana. Í Norðvesturkjördæmi leiðir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, listann. Í Norðausturkjördæmi leiðir Njáll Trausti Friðbertsson og í Suðurkjördæmi leiðir Guðrún Hafsteinsdóttir listann.
Sjálfstæðisflokkurinn óskar frambjóðendum til hamingju með árangurinn og hlakkar til komandi kosningabaráttu!