Tuttugu og fjögur þúsund hluthafar í Íslandsbanka

Hlutafjárútboði á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka lauk í vikunni og er um er að ræða stærsta frumútboð hlutabréfa sem farið hefur fram hér á landi. Hluthafar verða 24 þúsund við skráningu. Þótti útboðið heppnast með afbrigðum vel.

Margföld umframeftirspurn var í útboðinu á endanlegu útboðsverði og sýndu bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar útboðinu talsverðan áhuga en heildareftirspurn nam samtals 486 milljörðum króna. Verð á hverjum útboðshlut er 79 kr.- og er áætlað markaðsvirði Íslandsbanka, miðað við útboðsverð, er 158 milljarðar króna.

„Það er ánægjulegt að sjá niðurstöður úr vel heppnuðu útboði Íslandsbanka. Mikil eftirspurn og þátttaka almennings er sérstaklega ánægjuleg, en hluthafar í Íslandsbanka verða þannig flestir af öllum skráðum félögum á íslenskum markaði. Leiðir þetta ekki síst af þeirri ákvörðun að heimila áskriftir allt niður í 50 þúsund krónur og að láta áskriftir einstaklinga allt að einni milljón króna óskertar,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins við þetta tilefni.

„Salan er ábatasöm fyrir ríkissjóð og kemur sér vel í þeirri uppbyggingu sem fram undan er næstu misseri. Mestu skiptir þó að við tökum hér fyrsta skrefið í að minnka áhættu ríkisins í bankarekstri og færumst nær heilbrigðara umhverfi líkt og þekkist á Norðurlöndum og öðrum nágrannaríkjum okkar,“ sagði Bjarni að lokum.