Hjólin snúast áfram

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi: 

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 verður lögð fram í borgarstjórn í dag. Árið 2009, þegar fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var gerð, var hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum 2%. Tíu árum síðar var hlutdeildin 7%. Með því að setja okkur markmið, búa til áætlanir og framfylgja þeim með framkvæmdum getum við náð stórkostlegum árangri.

Fyrsta markmið nýrrar hjólreiðaáætlunar er að hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum verði a.m.k. 10% árið 2025. Það þýðir ekki að 10% íbúa eigi að fara allra sinna ferða á hjóli, heldur að fólk geti valið um að ferðast með þeim hætti sem hentar hverju sinni. Kannanir sýna að mun fleiri vilja hjóla en gera það í raun. Þess vegna þarf að gera enn betur í uppbyggingu innviða fyrir hjól, svo fólk hafi raunverulegt val um að velja hjólið, hvort sem það er reiðhjól eða hlaupahjól, þegar það hentar best.

Annað markmiðið er að bæta innviði og gera hjólreiðar sýnilegri. Aukning síðustu ára og reynsla erlendis sýnir að með bættum innviðum fjölgar þeim sem hjóla. Þegar fleiri hjóla, þá eykst öryggi þeirra. Við ætlum að setja fimm milljarða í uppbyggingu hjólainnviða á tímabilinu. Lengd sérstakra hjólastíga í dag í Reykjavík eru 32 km en við stefnum á að þeir verði 50 km árið 2025 og 100 km árið 2030.

Þriðja markmiðið er að bæta þjónustu við stíga. Vetraraðstæður geta verið erfiðar í Reykjavík og þess vegna þarf þjónusta við stígana að vera framúrskarandi og áreiðanleg. Auk þess þarf að bæta viðhald og þjónustu við stíga allt árið.

Fjórða markmiðið er hjólamenning. Fólk á að geta litið til hjólsins þegar kemur að því að velja sér fararmáta. Reykjavík stefnir á að verða hjólaborg á heimsmælikvarða því betri hjólaborg eykur lífsgæði allra borgarbúa. Hjólreiðar eru hagkvæmur, heilsusamlegur og skemmtilegur ferðamáti. Loftgæði verða betri, íbúar verða heilsuhraustari og tafir í bílaumferð verða minni. Hjólreiðar eru hamingjuríkasti ferðamátinn.

Gleðilegt hjól!

Fréttablaðið 15. júní, 2021.