Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Sjaldnast líða kjörtímabil eins og séð var fyrir. Nú undir lok tímabilsins eru aðgerðir vegna heimsfaraldurs enn áberandi, en full ástæða er til að vekja athygli á þeim góðu verkum sem fjallað var um í stjórnarsáttmála og gengið hafa eftir, þrátt fyrir faraldurinn.
Sjálfstæðisstefnan snýst um frelsi, framfarir, öflugt atvinnulíf og lágar álögur. Við lögðum áherslu á að lækka skatta, draga úr álögum á fólk og fyrirtæki og það höfum við gert. Skattkerfið hefur tekið jákvæðum breytingum mörg undanfarin ár.
Tekjuskattur hefur lækkað stöðugt undanfarin ár, mest hjá þeim tekjulægri. Vegna skattabreytinga síðustu tveggja ára hefur fólk með 400 þúsund króna mánaðarlaun nærri 10 þúsund krónum meira milli handanna í hverjum mánuði en áður. Lækkanirnar eru enn meiri litið lengra aftur í tímann.
Stimpilgjald er ekki lengur greitt við endurfjármögnun lána og fyrstu kaupendur fá helmingsafslátt af gjöldunum. Frítekjumörk vegna fjármagnstekjuskatts tvöfölduðust um áramótin, úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund. Breytingin kemur sér sérstaklega vel fyrir eldri borgara, en mikill minnihluti þeirra greiðir nú fjármagnstekjuskatt.
Undir frítekjumarkið felldum við jafnframt söluhagnað sumarhúsa, auk söluhagnaðar og arðstekna vegna hlutabréfa. Fyrri breytingin er sérstaklega hagfelld fyrir eldri borgara, en sú síðara er kærkomin innspýting í atvinnulífið með aukinni þátttöku almennings á markaði.
Tryggingagjaldið var 7,7% árið 2013, en er nú 6,1%. Það munar um minna fyrir íslensk fyrirtæki. Fyrir nokkrum árum var VSK-hlutfallið 25,5% og þannig með því hæsta í Evrópu. Við lækkuðum hlutfallið í 24%, en það er nú hvergi lægra á Norðurlöndum.
Sérstakir skattalegir hvatar hafa verið samþykktir til að örva fjárfestingar atvinnulífsins.
Með nýjum lögum getur fólk dregið allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum ef það styrkir almannaheillastarfsemi. Nýtt hvatakerfi ýtir undir umsvif í einkageiranum og styður við grænar fjárfestingar. Vörugjöld og tollar á iðnaðarvörur hafa verið felld niður og sem og virðisaukaskattur á vistvæn ökutæki. Áfram mætti lengi telja.
Við hækkuðum skattleysismörk erfðafjár verulega um áramótin, úr einni og hálfri milljón í fimm. Skerðingarmörk barnabóta hækka stöðugt, en rannsóknir sýna að hér er stuðningur til tekjulágra barnafjölskyldna í næstum öllum tilfellum hæstur á Norðurlöndum.
Á sama tíma og skattar lækka höfum við eflt þjónustu, aukið afköst og bætt gagnsæi, en á nýjum álagningarseðlum má sjá nákvæmlega hvernig skattgreiðslurnar skiptast niður á málaflokka. Breytingin kemur í framhaldi af sundurliðun skattgreiðslna til ríkisins og útsvars til sveitarfélaga á álagningarseðlum fyrir nokkrum árum.
Fyrir þann tíma vissu eflaust fáir hve stór hluti álagningarinnar er í formi útsvars, en í dag þurfa mánaðarlaun að slaga hátt í 900 þúsund krónur áður en farið er að greiða meira til ríkis en sveitarfélags.
Lægri álögum fylgir öflugra atvinnulíf og aukin hagsæld vinnandi fólks. Við munum halda áfram að létta byrðarnar og örva framfarir. Það leggur grunninn að velferð fyrir alla.
Morgunblaðið 12. júní.