Úrskurður yfirkjörstjórnar Varðar vegna athugasemda vegna framkvæmd prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Úrskurður

Yfirkjörstjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hafa borist athugasemdir vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, dagana 4. og 5. júní 2021 f. h. framboðs Guðlaugs Þórs Þórðarssonar og f.h. framboðs Diljár Mistar Einarsdóttur af hálfu umboðsmanna beggja framboða.

I.

Lúta athugasemdirnirnar að aðgangi frambjóðenda að kjörskrá og flokksskrá Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda prófkjörs sem varði við 2. mgr. 4. gr. prófkjörsreglna um jafnan aðgang frambjóðenda að upplýsngum. Hljóðar 2. mgr. 4. gr. prófkjörsreglna svo:

Framjóðendur til prófkjörs skulu allir hafa sama aðgang að gögnum Sjálfstæðisflokksins, eftir nánari ákvörðun stjórnar viðkomandi kjördæmisráðs í samvinnu við skrifstofu Sjálfstæðisflokksins og í samræmi við persónuverndarstefnu flokksins.

Athugasemdirnar snúa að því að Magnús Sigurbjörnsson, bróðir eins frambjóðenda, hafi haft aðgang að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins, þ.e. nákvæmar og stöðugt uppfærðar upplýsingar um flokksmenn, í aðdraganda prófkjörsins og eftir að framboðsfrestur í prófkjörinu rann út.

II.

Yfirkjörstjórn hefur farið yfir efni athugasemdanna, aflað sér nánari upplýsinga og kynnt sér gögn málsins.

Magnús Sigurbjörnsson hafði aðgang að flokkskrá Sjálfstæðisflokksins vegna verkefna sem hann vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Verkefni Magnúsar snérist að því að tengja saman flokksskrá og nýtt tölvupóstkerfi flokksins. Magnús hafði áður unnið hjá flokknum í rúm fjögur ár. Var aðgangi Magnúsar að flokksskrá lokað þann 1. júní sl.

Magnús hefur aldrei haft aðgang að kjörskrá vegna prófkjörsins sem haldið verður 4. og 5. júní nk.

Yfirkjörstjórn fór yfir innskráningar Magnúsar í flokksskrá. Síðasta innskráning Magnúsar var þann 10. maí. Var sú innskráning að beiðni starfsmanns Sjálfstæðisflokksins vegna verkefnis sem Magnús vann að.

Frambjóðsfrestur vegna prófkjörsinis rann út föstudaginn 14. maí sl. Kjörskrá var afhent frambjóðendum þann 18. maí. Þá var viðbót við kjörskrá sem m.a. innihélt nýskráningingar aðgengileg öllum framboðum kl. 10.00 mánudaginn 31. maí. Fyrir liggur að frambjóðendur sem vildu nýta sér þau gögn hófu úthringingar strax í kjölfarið.

Í ljósi famangreinds er það niðurstaða yfirkjörstjórnar að athugasemdirnar eigi ekki við rök að styðjast og ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 4. gr. prófkjörsreglna um jafnan aðgang að gögnum Sjálfstæðisflokksins.

Úrskurðarorð

Yfirkjörstjórn Varðar mun ekki  aðhafast frekar athugasemda framboða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Diljár Mistar Einarsdóttur.

Reykjavík 3. júní 2021

Kristín Edwald, formaður, Einar Sigurðsson, Jón Karl Ólafsson, Rúna Malmquist Skúli Hansen