Norðurslóðir og þekkingareyjan Ísland

Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður:

Áhugi á málefnum norðurslóða er mikill og fer vaxandi, þar fara norðurslóðaríkin Bandaríkin, Kanada, Rússland og Norðurlöndin auðvitað fremst í flokki en áhuginn er síst minni hjá löndum sem eru fjarri norðurslóðum. Bráðnun íssins opnar nýjar siglingaleiðir sem stytta siglingaleiðina milli Asíu og Evrópu um allt að 40%. Því fylgja ýmis tækifæri, á svæðinu eru auðlindir en síðast en ekki síst hafa flest ríki áttað sig á að þær miklu breytingar sem eru að verða á svæðinu sökum loftslagsbreytinga hafa áhrif á okkur öll. Ekki bara okkur sem búum á norðurslóðum. Ríki og ríkjasambönd eru ekki ein um að hafa áhuga á svæðinu, tækifærum og ógnunum sem þar lúra heldur hefur atvinnulífið og fjöldi félagasamtaka mikinn áhuga á svæðinu. Fyrir Ísland felast margvísleg tækifæri í auknum alþjóðlegum áhuga á norðurslóðum. Sem friðsamt smáríki, miðja vegu milli norðurskautsríkjanna í austri og vestri, er Ísland í ákjósanlegri aðstöðu til að marka sér enn frekar sess sem vettvangur umræðu og ráðstefnuhalds um norðurslóðir. Rannsóknir eru forsenda þess að greina megi þær öru breytingar sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum og meta hvaða viðbragða er þörf. Norðurslóðarannsóknir snerta mörg fræðasvið og kalla á virkt alþjóðlegt samstarf. Þarna liggja mikil sóknarfæri fyrir Ísland að vera vettvangur opinnar umræðu um rannsóknaniðurstöður, leiða saman rannsakendur frá ýmsum löndum, finna leiðir til að hagnýta rannsóknaniðurstöður og stuðla að nýsköpun. Það er því mikilvægt að nýta krafta fræðasamfélagsins sem heildar hér á landi til að nýta sem best þekkingu þess og reynslu. Enda eru verkefni framtíðarinnar krefjandi og kalla á framsýnar lausnir, öflugt samstarf og víðtæka þátttöku fræðasamfélagsins í samstarfi við einkaaðila, sveitarfélög og ríki.

Hringborðið

Hringborð norðurslóða (Arctic Circle) hefur frá 2013 verið einn helsti opni umræðuvettvangurinn um málefni svæðisins. Árleg þing þess í Hörpu í Reykjavík hafa að jafnaði verið sótt af rúmlega tvö þúsund gestum víðs vegar að – jafnt ráðamönnum, fræðafólki og fulltrúum grasrótarsamtaka og atvinnulífs. Auk þess hefur Hringborðið haldið fjölmenn málþing og ráðstefnur víða um heim. Í því skyni að treysta til framtíðar stoðirnar undir starf Hringborðs norðurslóða er hafinn undirbúningur að stofnun norðurslóðaseturs á Íslandi, sem kennt yrði við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands og hvatamann að stofnun þess. Einnig má líta til möguleika á að efla tvíhliða og fjölhliða samstarf á sviði norðurslóðarannsókna og fræða, sem og um sjálfbæra nýsköpunarstarfsemi.

Nýsköpun er ekki bara æskileg heldur nauðsynleg til að tryggja efnahagslega velgengni þjóðarinnar en líka til að leysa stærsta úrlausnarefni samtímans sem er hnattræn hlýnun. Hugvitið er uppspretta nýsköpunar og stærsta auðlind okkar, auðlind sem við getum virkjað endalaust.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. maí 2021.