Verkin tala

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Síðastliðið ár hefur verið krefjandi fyrir okkur landsmenn. Við þurftum að bregðast snögglega við óvæntri ytri ógn, móta viðbragð við heimsfaraldri. Frá upphafi hefur markmið stjórnvalda verið að tryggja heilsu, öryggi og afkomu fólks. Lágmarka efnahagslegan skaða með stuðningi við fyrirtæki og grunnstoðir samfélagsins. Skapa skjól, en um leið leggja grunn að öflugri viðspyrnu fyrir efnahagslífið.

Mikilvægur þáttur við ákvarðanatöku í slíkum aðstæðum felst í að hlusta á fólk og rekstraraðila svo forgangsraða megi aðgerðum með árangursríkum hætti.

Þó nú sjáist til sólar framlengdi ríkisstjórnin nýlega ýmsar stuðningsaðgerðir fyrir fólk og fyrirtæki, enda hefur ástandið varað mun lengur en flestir gerðu ráð fyrir í fyrstu. Í þeirri vegferð létum við þessi sjónarmið ráða för. Að framlengja og rýmka úrræði sem við sáum og heyrðum að skiluðu árangri.

Lausnir sem virka

Eitt þeirra úrræða sem hefur nýst fjölda fyrirtækja undanfarna mánuði eru viðspyrnustyrkir. Í vor bárust hins vegar ábendingar um að þröskuldurinn væri of hár, þannig að einhver fyrirtæki sem sannarlega þyrftu stuðning féllu á milli. Við réðumst því í að lækka tekjufallsmörkin og höfðum breytinguna afturvirka, til að grípa örugglega þá sem þurftu.

Úttekt séreignar nýttist mörgum heimilum til að brúa bilið í fyrra, en sérstök heimild þess efnis rann út um áramótin. Bent var á að enn væri full þörf á slíku úrræði, svo við framlengdum gildistímann og nú verður hægt að nýta heimildina út árið 2021.

Þrátt fyrir stóraukna bjartsýni í atvinnulífinu og mikinn viðnámsþrótt fyrirtækja er enn víða þörf á auknu svigrúmi. Við tryggðum því áframhaldandi greiðsludreifingu opinberra gjalda fyrir þá sem á þurftu að halda, í allt að 48 mánuði. Áfram mætti lengi telja, en ný, framlengd og rýmkuð úrræði eru á annan tug.

Séreign nýtist áfram inn á lán

Utan þess sem beinlínis snýr að heimsfaraldrinum er mikilvægt að sömu sjónarmið ráði för í öllum okkar störfum. Að við leggjum áherslu á lausnir og aðgerðir sem skila raunverulegum árangri.

Í þeim anda mælti ég nýlega fyrir frumvarpi um framlengda heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á húsnæðislán. Heimildin rynni ella út í sumar, en hún hefur nýst um 60 þúsund Íslendingum.

Með leiðinni hefur fólki verið gefinn kostur á að nýta aukasparnað skattfrjálst til að létta af sér skuldum og auka fjárhagslegt svigrúm. Heimilin hafa þegar nýtt tugi milljarða í þessu skyni og eftirspurnin eftir framlengingu verið mikil. Með breytingunni er tryggt að þetta verði hægt áfram.

Bjartari tímar

Þegar við stöndum á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldur er gott að líta um öxl og spyrja sig; hvað gekk vel, hvað mátti gera betur og hvernig getum við lært af reynslunni? Í því samhengi er ánægjulegt að sjá að margt hefur sannarlega gefist vel. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst í fyrra, þrátt fyrir allt, og innlend eftirspurn dróst aðeins lítillega saman. Mikillar bjartsýni gætir nú í atvinnulífinu, ánægja mælist með aðgerðir stjórnvalda og fleiri fyrirtæki sjá fram á að fjölga starfsfólki en fækka.

Okkur hefur tekist að brúa bilið fyrir svo marga. Bólusetningar ganga vel og við sjáum fram á bjartari tíma með frekari tilslökunum á samkomutakmörkunum.

Um þetta hefur okkar stefna snúist og um þetta mun hún áfram snúast. Að láta verkin tala. Að vera djörf og ákveðin, hafa trú á tækifærum og möguleikum þjóðarinnar, sýna þrautseigju og sækja kraft í samstöðuna. Það skiptir aldrei meira máli en í sterkum mótbyr.

Við erum skref fyrir skref að komast út úr kófinu. Nú birtir til að nýju.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 20. maí.