Ræddu m.a. öryggis- og varnarmál, málefni norðurslóða og mannréttindi

Viðskiptamál, öryggis- og varnarmál, málefni norðurslóða, alþjóðamál og mannréttindi voru helstu umræðuefnin á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna í vikunni. Ráðherrarnir skoðuðu Hellisheiðarvirkjun og Carbfix-verkefnið síðdegis.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna er á meðal þeirra sem sækir ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í vikunni. Á rúmlega klukkustundar löngum fundi þeirra Guðlaugs Þórs í Hörpu í fyrradag voru fjölmörg málefni sem snúa að samskiptum ríkjanna til umræðu og sameiginlegum hagsmunum þeirra. Ráðherrarnir minntust þess sérstaklega að áttatíu ár væru liðin frá því að Ísland og Bandaríkin tóku upp stjórnmálasamband og voru sammála um að það stæði styrkum fótum sem aldrei fyrr.

Ráðherrarnir ræddu m.a. stöðu og horfur í alþjóðamálum, ekki síst átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir voru sammála um að staðan þar væri grafalvarleg og leita yrði allra leiða til að komast úr vítahring ofbeldis og vinna að varanlegri lausn og friði. Þá voru loftslagsmál og ýmis sameiginleg gildi á borð við mannréttindi, jafnrétti og lýðræði sömuleiðis til umræðu.

Sjá nánar í frétt á vef utanríkisráðuneytisins.