Alþingi samþykkti nýverið nokkur frumvörp Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, sem fela í sér aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar má meðal annars nefna framhald og rýmkun viðspyrnu- og lokunarstyrkja, sérstakan barnabótaauka og útgreiðslu séreignasparnaðar.
Heimilað var að nýju að taka tímabundið út ákveðinn hluta af séreignarsparnaði, en gripið var til sambærilegrar heimildar snemma í faraldrinum sem gilti út árið 2020. Til að mæta áhrifum faraldursins, sem hafa varað lengur en gert var ráð fyrir í fyrstu, var ákveðið að endurnýja heimildina.
Hægt verður að taka út séreignarsparnað til eigin nota út árið 2021 og eru sömu viðmið um fjárhæðir og tímabil og giltu á árinu 2020. Hámarksútgreiðsla er 12 m.kr. yfir 15 mánaða tímabil og útgreiðsla hvers mánaðar nemur að hámarki 800 þúsund krónum.