Lánshæfiseinkun ríkissjóðs staðfest A/A1 og horfur eru stöðugar

Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfestir að lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands er A/A-1 með stöðugum horfum.

Matsfyrirtækið segir í fréttatilkynningu sinni að þróttmikil innlend eftirspurn hafi mildað efnahagssamdráttinn á Íslandi á árinu 2020, en hann mældist næstum 7% að raunvirði. Þetta kemur fram á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Í fréttatilkynningu S&P Global Ratings kemur fram það mat fyrirtækisins, að efnahagsbatinn muni að miklu leyti verða háður viðsnúningi í ferðaþjónustu. Stjórnvöld hafa veitt umtalsverðan stuðning á sviði ríkisfjármála og peningamála og telur S&P að mestur hluti stuðningsaðgerða muni verða dreginn til baka undir lok árs 2021. Ólíkt fyrri áföllum hefur þrýstingur á ytri hlið hagkerfisins verið viðráðanlegur. Viðskiptajöfnuður var lítillega jákvæður, erlend skuldsetning tiltölulega lítil og gjaldeyrisforðinn rúmur.

Stöðugar horfur endurspegla að líklega verður áframhaldandi efnahagsbati á seinni hluta árs 2021. Það ætti að gera stjórnvöldum kleift að vinda ofan af stórum hluta stuðnings á sviði ríkisfjármála og peningamála sem hefur mildað efnahagssamdráttinn og minnkað óstöðugleika í gengi krónunnar í faraldrinum. Það mun halda aftur af hækkun opinberra skulda á næstu árum.

Á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram, að samkvæmt S&P gæti fyrirtækið hækkað lánshæfiseinkunnir Íslands ef efnahagsbatinn eftir faraldurinn verður umfram væntingar fyrirtækisins og hagkerfi og útflutningur Íslands verða fjölbreyttari með þeim afleiðingum að sveiflur í viðskiptakjörum minnka.

Lesið meira hér: