Einskis máls flokkur?

Sigríður Á. Andersen, alþingismaður:

Þing­flokk­ur Viðreisn­ar lagði ný­lega til að blásið yrði lífi í þings­álykt­un vinstri stjórn­ar­inn­ar frá 2009 um aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu. Fyr­ir utan það metnaðarleysi þing­flokks­ins að hengja sig á 12 ára gamla þings­álykt­un vinstri stjórn­ar­inn­ar vek­ur helst at­hygli að þessi til­laga komi ekki fram fyrr en nú við lok kjör­tíma­bils­ins. Jafn­vel þótt hún yrði samþykkt myndi hún ekki binda hend­ur nýs þing­meiri­hluta eða rík­is­stjórn­ar að lokn­um kosn­ing­um sem fara fram eft­ir nokkra mánuði.

Ekki minnst á auðlind­ir lands­ins

Það seg­ir einnig ákveðna sögu um al­vöru­leysið sem þarna býr að baki að ekki er minnst á auðlind­ir lands­ins í grein­ar­gerð Viðreisn­ar með til­lög­unni. Hver væru samn­ings­mark­miðin varðandi sjáv­ar­út­veg, land­búnað og orku­auðlind­ir lands­ins? Að því er ekki vikið einu orði. Hins veg­ar er það tínt til að Ices­a­ve-deil­an hafi verið leyst vegna reglu­verks Evr­ópu­sam­bands­ins! Deil­an átti þó upp­tök sín í óraun­hæfu reglu­verki sam­bands­ins. Stofn­ana­kerfi ESB, aðild­ar­ríki sam­bands­ins og sam­bandið sjálft gerðu óbil­gjarn­ar kröf­ur á Ísland, sátu um landið efna­hags­lega árum sam­an og stefndu Íslandi að lok­um fyr­ir dóm þar sem kröf­un­um var hafnað. Helstu for­svars­menn Viðreisn­ar lögðust á ár­arn­ar með ESB og keyptu há­karla­aug­lýs­ing­ar til að hræða Íslend­inga til þess að und­ir­gang­ast hinar lög­lausu kröf­ur.

Ónægt til­efni

Lands­fund­ir Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa hafnað til­lög­um um að Ísland gangi í Evr­ópu­sam­bandið. Vegna gremju með þessa lýðræðis­legu niður­stöðu í stærsta stjórn­mála­flokki lands­ins var Viðreisn að því er virt­ist stofnuð árið 2016.

Sam­starf við Evr­ópu­sam­bandið er und­ar­legt mál til að láta steyta á með þess­um hætti því með EES-samn­ingn­um er Ísland í mjög nán­um tengsl­um og sam­skipt­um við ESB. Svo nán­um að ýms­um þykir nóg um þótt ekki liggi endi­lega í aug­um uppi hvað gæti komið í staðinn. Enda seg­ir í grein­ar­gerð með til­lögu Viðreisn­ar: „Ísland hef­ur nú í rúm­an ald­ar­fjórðung verið aðili að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins með aðild­inni að samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið. Innri markaður­inn er kjarn­inn í starfi Evr­ópu­sam­bands­ins. Aðild EFTA-þjóðanna að hon­um fel­ur því í raun í sér aukaaðild að sam­band­inu.“ Þegar þetta er haft í huga er skrítið að geta ekki um­borið það að mörg­um þyki vænt um full­veldi og sjálf­stæði lands­ins og kæri sig ekki um meira en „aukaaðild“ að ESB.

ESB ekki skil­yrði

Eft­ir þing­kosn­ing­ar haustið 2017 myndaði Viðreisn „þing­banda­lag“ með Sam­fylk­ingu og Pír­öt­um með það að mark­miði að mynda vinstri stjórn í land­inu. Það var eins kon­ar loka­tilraun til að koma í veg fyr­ir mynd­un nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar. Hinn 6. nóv­em­ber 2017 birti Rík­is­út­varpið frétt­ina „Viðreisn myndi ekki setja ESB sem skil­yrði“ á vef sín­um. Þar sagði:

„Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, met­ur stöðuna við stjórn­ar­mynd­un þannig í dag að flokk­arn­ir verði að koma sér sam­an um stjórn með breiðri skír­skot­un. Flokk­ur­inn myndi ekki setja at­kvæðagreiðslu um aðild að ESB sem skil­yrði fyr­ir þátt­töku í rík­is­stjórn.“

Þetta voru svo sem eng­in ný tíðindi því tæpu ári áður hafði Viðreisn sest í rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar án þess að sú stjórn hefði það að mark­miði að end­ur­vekja viðræður um aðild. En vissu­lega var það nokk­ur ný­lunda að farga stefnu­mál­inu án þess að fara í stjórn.

Mál­efni eða menn?

Það er eitt að stofna sér­stak­an flokk um eitt til­tekið mál. En þá er ekki mjög sann­fær­andi að fórna því aft­ur og aft­ur og fylgja mál­inu ekki eft­ir á þingi fyrr en rétt fyr­ir kosn­ing­ar og þá með hang­andi hendi. Þessi fram­ganga bend­ir til að stofn­un flokks­ins hafi frem­ur snú­ist um menn og þeirra per­sónu­lega metnað en mál­efnið.

Morgunblaðið, 8 maí.