Hjúkrunarfræðingur eða smiður

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: 

Alþingi samþykkti í vikunni mikilvægt frumvarp um aðgengi iðnmenntaðra að háskólum. Um er að ræða frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á inntökuskilyrðum að háskóla fyrir nemendur sem vilja hefja nám til fyrstu háskólagráðu. Með frumvarpinu er lokapróf frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalskrá framhaldsskóla nú metið til jafns við stúdentspróf.

Þetta er ánægjulegt því eitt af helstu baráttumálum mínum sem þingmaður var að stúdentspróf væri ekki eina leiðin til að undirbúa sig undir frekara nám. Á mannamáli þýðir þetta að ekki er gert upp á milli starfsnáms og bóknáms með sama hætti og áður. Fram til þessa hafa nemendur sem lokið hafa annars konar prófi úr framhaldsskóla, t.d. tækninámi, ekki haft sama rétt á inngöngu í háskóla. Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að fjölga nemendum í iðn-, raun- og tæknigreinum. Nú höfum við loksins látið kné fylgja kviði.

Breytingin er liður í stærri og mikilvægari vegferð, að menntakerfið hér á landi svari kalli tímans hverju sinni. Á síðustu árum hefur mikill fjöldi nýrra starfa orðið til og önnur störf lagst af. Þessi þróun mun halda áfram. Það getur enginn séð nákvæmlega fyrir hvernig þróunin verður, en við getum sannarlega undirbúið okkur vel fyrir óumflýjanlegar breytingar með því að byggja upp öflugt og fjölbreytt menntakerfi. Það skýtur skökku við og er ávísun á afturför ef atvinnulífið þróast en menntakerfið ekki.

Það mætti raunar færa þessi viðmið enn neðar þegar horft er til aldurs nemenda. Strax í grunnskóla byggjum við grunn sem nýtist til framtíðar. Við leggjum réttilega áherslu á grunngreinar en við þurfum um leið að huga að aukinni fjölbreytni þar sem hæfileikar og sköpunarkraftur einstaklinga fær að njóta sín. Ég hef áður fjallað um mikilvægi þess að efla verklegt nám í grunnskólum og öll sú þróun sem orðið hefur í alþjóðlegu atvinnulífi ýtir undir mikilvægi þess að það sé gert.

Þetta er ekki spurning um annaðhvort eða. Einstaklingur hefur á barnsaldri engar forsendur til að meta þá hvort starfið sem verði fyrir valinu verði læknir, endurskoðandi, vélvirki eða smiður, hvort viðkomandi vilji starfa við rannsóknir eða hugbúnað. En með því að hafa meira val og ýta undir frekari fjölbreytni í menntakerfinu getum við lagt grunn að því viðhorfi að ekkert starf sé merkilegra eða ómerkilegra en annað, heldur þurfum við að eiga þess kost að geta valið okkur starfsvettvang við hæfi. Við getum aldrei sent þau skilaboð að verknám sé minna virði, eða bóklegt nám.

Morgunblaðið, 13. maí