Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Sólskin síðustu daga er táknrænt fyrir tímana sem nú fara í hönd. Það birtir til og hlýnar og við lesum góðar fréttir dag eftir dag. Vel yfir 100 þúsund Íslendingar hafa fengið allavega fyrri skammt bóluefnis. Bjartsýni eykst hjá íslenskum fyrirtækjum og fleiri sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkun. Þotur hefja sig til flugs og það styttist í að heimurinn opnist á ný, hægt og rólega.
Undanfarið höfum við sett fram skýrar áætlanir um framvinduna. Gangi allt að óskum vonumst við til að draga úr sóttvarnaaðgerðum innanlands næstu vikur og afnema þær loks í lok júní, þegar meirihluti fullorðinna hefur fengið minnst eina sprautu. Við endurheimtum brátt eðlilegt líf. Fyrir helgi kynntum við auk þess framlengingu og smíði nýrra úrræða til að styðja áfram við fólk á lokametrunum. Nefna má framlengda úttekt séreignar og framlengda og útvíkkaða viðspyrnustyrki, þar sem lágmark tekjufalls lækkar niður í 40%, afturvirkt. Við greiðum út sérstakan barnabótaauka, framlengjum og útvíkkum lokunarstyrki, heimilum hliðrun stuðningslána og framlengjum frestun skattgreiðslna. Við innleiðum styrki til endurráðninga, kynnum græna fjárfestingarhvata og nýja ferðagjöf. Áfram mætti lengi telja. Alls eru úrræðin á annan tug og var lögð sérstök áhersla á að hlusta á ábendingar úti í samfélaginu um hvað mætti gera enn betur.
Þrátt fyrir allt hefur gengið vel síðustu mánuði. Kaupmáttur jókst í fyrra þrátt fyrir heimsfaraldurinn og innlend eftirspurn dróst lítið saman. Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stuðluðu viðbrögð stjórnvalda að betri þróun en flestir gerðu ráð fyrir, en við byggðum á traustum grunni hagstjórnar síðustu ára. Aðgerðirnar veittu ekki bara skjól, heldur einnig nauðsynlegt súrefni til fyrirtækja til að halda sjó og ná vopnum sínum á ný þegar birtir til. Við þetta bætist fjárfesting í nýsköpun, rannsóknum og þróun – sem saman munu stuðla að fjölda nýrra starfa og draga hratt úr atvinnuleysi á komandi misserum.
Veturinn einkenndist af óvissu og vörn, en nú horfum við til framtíðar. Sumarið verður tími endurreisnar og sóknar.
Fréttablaðið 4. maí 2021