Loftslagsógnir og arðbærar lausnir

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:

Við getum ekki lengur látið nægja að tala um loftslagsbreytingar, nú er kominn tími aðgerða. Það er fullkomin firring að loftslagsvandinn verði leystur á ráðstefnum eða með skrifræði stjórnvalda. Við þurfum aðgerðir og við þurfum að nýta þá hvata sem við þekkjum og duga. Arðbærar lausnir í loftslagsmálum mega ekki lengur vera bannorð. Grænt hagkerfi byggt á íslenskum lausnum og hugviti sem skapar verðmæt störf og eykur samkeppnishæfni er það sem við eigum að stefna að. Í sérhverri ógn leynast líka tækifæri og það er gömul saga og ný að knýjandi aðstæður leysa oftar en ekki úr læðingi framfarir og hugvit sem allir geta haft ávinning af.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp það sem við höfum nú þegar gert til þess að sporna við loftslagsbreytingum. Við getum verið stolt af því að vera samfélag sem notar endurnýjanlega orkugjafa, vatnsafl og jarðhita, til raforkuframleiðslu og húshitunar. Þetta er meira en flestir geta sagt. Þessa staðreynd förum við jafnan með í samtölum við aðrar þjóðir jafnt í tvíhliða- og á alþjóðavettvangi. Við höfum góða sögu að segja og margt fram að bjóða sem heimurinn þarfnast í þessari baráttu.

Jarðvarminn uppspretta framfara

Við Íslendingar eru í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að þekkingu og færni í jarðhitamálum, má í því sambandi nefna að íslensk fyrirtæki eiga sinn þátt í uppbyggingu jarðvarmaveitu í Kína, þeirri stærstu í heimi. Og við miðlum því áfram sem við erum góð í. Sérþekking Íslands á þessu sviði er orðið eitt helsta framlag okkar til þróunarsamvinnu, með rekstri Jarðhitaskólans og með stuðningi við ríki í Austanverðri Afríku í samstarfi við alþjóðastofnanir og sjóði. Reynsla íslenskra fyrirtækja er einnig dýrmæt og hefur því verið lögð áhersla á að gefa þeim möguleika á að taka þátt í verkefnum í þróunarríkjunum í gegnum svokallaða ráðgjafalista og heimsmarkmiðasjóð utanríkisráðuneytisins.

Innan fjölþjóða stofnana höfum við lagt áherslu á mikilvægi fjárfestinga í endurnýjanlegum orkugjöfum og einnig heitið því sjálf að auka okkar þátttöku og stuðning við loftslagstengd þróunarverkefni. Aðgangur þróunarríkja að sjálfbærri orku er grundvöllur að efnahagsframförum á forsendum sjálfbærrar þróunar. Ísland hefur tekið að sér hlutverk heimserindreka í tengslum við ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku þar sem við munum leggja áherslu á hlutverk hennar til að ná heimsmarkmiðunum.

Gas í grjót

Jarðhiti er ekki eina græna lausnin sem hefur verið þróuð á Íslandi, við höfum einnig þróað aðrar lausnir í baráttunni við loftslagsbreytingar sem eiga erindi jafnt hér á landi sem um allan heim. Carbfix-aðferðin, þar sem koltvísýringi er umbreytt í stein djúpt í jarðlögum með náttúrulegum ferlum, er ein slík lausn. Þessi aðferð er mikilvæg á alþjóðavísu, því ef stöðva á hlýnun loftslags þá þarf að binda koltvísýring í stórum stíl frá iðnaði sem ekki getur á nægilega skömmum tíma farið í orkuskipti eða nýtt sér nýja tækni. Utanríkisráðuneytið hefur lagt á það áherslu að aðstoða fyrirtæki á borð við Carbfix við að koma sér á framfæri á erlendum mörkuðum.

Mörg ríki stefna að því að nota vetni sem orkubera í þeirra orkuskiptum. Fylgst er náið með þessari þróun og við höfum verið í tvíhliða samskiptum við mörg þeirra sem sóst hafa eftir samstarfi á þessu sviði. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi þróun er að eiga sér stað í dag, þetta er ekki einhver framtíðarmúsík.

Ísland hefur mikla möguleika á að taka þátt í þeirri umbreytingu sem er hafin í stærstu hagkerfum heims. Að byggja betri framtíð á grænum og arðbærum lausnum er forsenda þess að við náum eigin markmiðum í loftslagsmálum og eflum um leið útflutning byggðan á íslenskri sérþekkingu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2021