Sóknarhugur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Með auknum bólusetningum glittir í ljósið við enda kóvid-ganganna þó að enn séu blikur á lofti og fréttir um nýjar og óvæntar áskoranir veirunnar séu næstum hættar að koma á óvart.

Eins og ég nefndi í síðustu grein minni á þessum vettvangi veltur velferð okkar á næstu misserum og árum á því að ekki sé gert lítið úr þeim mikla og ósjálfbæra hallarekstri ríkissjóðs sem ætlað er að fleyta sem flestum landsmönnum yfir versta efnahagshöggið á meðan sóttvarnir lama drjúgan hluta atvinnulífsins. Þrátt fyrir það eru ýmis tilefni til bjartsýni og ég vil hér nefna fáein þeirra.

Metnaðarfull áform í farvatninu

Stóra viðspyrnan verður þegar forsendur skapast fyrir okkur að taka á móti ferðamönnum. Og það styttist svo sannarlega í hana. En fyrir utan þá miklu áskorun sem við höfum glímt við undanfarna 14 mánuði eða svo finnst mér tvennt annað standa upp úr sem gefur væntingar um aukna verðmætasköpun.

Í fyrsta lagi er það sá mikli fjöldi athafnafólks sem til mín hefur leitað undanfarið, til að kynna fyrir okkur metnaðarfullar hugmyndir sem það er með á teikniborðinu um nýjar framkvæmdir, nýjar fjárfestingar, nýjar lausnir, nýja verðmætasköpun. Oftar en ekki byggja þessar hugmyndir á auðlindanýtingu og lúta að sjálfbærni og grænum tækifærum.

Aðeins brot af þessum verkefnum hefur ratað í opinbera umræðu, en það er óhætt að segja að það eru mörg spennandi verkefni í pípunum, að mínu mati fleiri en verið hefur á undanförnum árum, og þó að aðeins helmingur þeirra eða þriðjungur yrði að veruleika þá myndi það skipta okkur Íslendinga verulegu máli.

Frumkvæði og drifkraftur byggðanna

Hitt sem mér finnst standa upp úr er sóknarhugurinn í öllum landshlutum, sem ég finn svo skýrt fyrir um þessar mundir. Þaðan kemur hvaðanæva mjög öflugt frumkvæði, og alls staðar er verið að breikka nálgunina, stækka samtalið, draga fleiri hagsmunaaðila að borðinu, og á einhvern hátt kannski beita nýjum aðferðum og nýjum tækjum til að fá fleiri aðila að sama borðinu fremur en að hver sé í sínu horni.

Þetta er mjög ánægjuleg þróun, ég held að hún sé vænleg til árangurs og mér þykir vænt um að fá þau viðbrögð að fólki finnist að stjórnvöld hafi að einhverju leyti stutt við þessa þróun. Má þar nefna jákvæð viðbrögð við þeirri breytingu á stuðningsumhverfi nýsköpunar sem felst í niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar og ráðstöfun mikilvægustu verkefna hennar til annarra aðila samhliða sérstakri áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í vikunni þrátt fyrir stöku mótmæli sem ég tel að muni ekki eldast vel.

Nýsköpunarsókn og grænar fjárfestingar

Þó að útgjöld séu vissulega ekki besti mælikvarðinn á störf stjórnvalda segir það samt ákveðna sögu að fjárveitingar til nýsköpunar, rannsókna og þróunar hafa aukist hlutfallsega meira á starfstíma þessarar ríkisstjórnar en til nokkurs annars málaflokks. Nýjasta dæmið er stofnun Lóu, sem styðja mun nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni um 100 milljónir króna á ári. Tekið skal fram að ekki er um nýtt fjármagn að ræða heldur ákvörðun sem tekin er í samhengi við uppstokkun á nýsköpunarumhverfinu.

Hvað varðar tækifærin sem tengjast orkumálum má nefna að skömmu fyrir jól lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp um tímabundnar ívilnanir til grænna fjárfestinga, sem vænta má að greiði verulega götu grænna fjárfestinga. Frumvarpið bíður nú annarrar umræðu á Alþingi og verður vonandi að lögum.

„Græni dregillinn“ er nýlegt samstarfsverkefni okkar og Íslandsstofu um að bæta þjónustu við græn fjárfestingarverkefni og straumlínulaga ferli þeirra. Íslandsstofa hefur átt gott og árangursríkt samtal við atvinnuþróunarfélög og fleiri hagsmunaaðila víða um land og verið mjög vel tekið.

Einn angi af verkefninu er samstarf við hagsmunaaðila á Bakka um að skoða tækifæri Íslands til að þróa græna iðngarða, eins og þekkjast erlendis. Afurðin úr þeirri vinnu mun ekki eingöngu nýtast því svæði heldur öllum landshlutum. Slík tækifæri blasa víða við, til að mynda á Grundartanga þar sem við höfum fjárfest í vinnu sem miðar að því.

Fleiri aðgerðir í orkumálum mætti nefna, til að mynda að frá og með næsta hausti ætti að nást full jöfnun á flutningskostnaði raforku, sem skiptir landsbyggðina að sjálfsögðu miklu máli.

Öll merki benda í eina átt: Tækifærin eru til staðar, þau eru raunhæf og þau eru nauðsynleg til að auka hér verðmætasköpun og lífsgæði eftir áföll undanfarinna mánaða. Það er undir okkur komið að leggjast á eitt við að greiða götu þeirra. Í því sambandi getur aukin orkuframleiðsla einfaldlega ekki verið fyrir utan sviga.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 17. apríl 2021.