Einkaaðilar geta létt undir með kerfinu

„Við erum öll hluti af sameiginlegu tryggingafélagi sem kaupir þjónustu fyrir okkar hönd sem heitir heilbrigðisþjónusta. Og öll með einum eða öðrum hætti greiðum við iðgjöld fyrir þessar tryggingar – alveg eins og við greiðum iðgjöld fyrir húsið okkar brunatrygginguna eða bílinn og svo framvegis. Og það er á grunni þessara iðgjalda að við eigum kröfu á því að ríkið tryggi það að við fáum þá þjónustu sem við þurfum á að halda í heilbrigðiskerfinu þegar við þurfum á henni að halda,“ segir Óli Björn Kárason alþingismaður í myndbandi á facebook sem birt var í gær. Þar fara hann ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, varaformanni Sjálfstæðisflokksins yfir hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum.

„Um það snýst okkar hugmyndafræði. Að gera ekki svona mikinn greinarmun á milli þess hver veitir þjónustuna og leggja alla áherslu á að þjónustan sé veitt,“ segir Bjarni Benediktsson.

Samvinnuverkefni ríkis og sjálfstætt starfandi

Óli Björn segir einnig: „Að byggja okkar þjónustu upp sem samvinnu verkefni – samstarfsverkefni hins opinbera og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna – lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og svo framvegis.“

„Þetta snýst bara um þetta samspil. Þetta snýst bara um: Hvernig geta einkaaðilar létt undir með kerfinu. Hvernig getum við hjálpast að við að reka sem öflugasta kerfið fyrir fólkið sem býr í þessu landi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Myndbandið má finna hér.