Einkaaðilar geta létt undir með kerfinu

21. apríl 2021

'}}

„Við erum öll hluti af sameiginlegu tryggingafélagi sem kaupir þjónustu fyrir okkar hönd sem heitir heilbrigðisþjónusta. Og öll með einum eða öðrum hætti greiðum við iðgjöld fyrir þessar tryggingar - alveg eins og við greiðum iðgjöld fyrir húsið okkar brunatrygginguna eða bílinn og svo framvegis. Og það er á grunni þessara iðgjalda að við eigum kröfu á því að ríkið tryggi það að við fáum þá þjónustu sem við þurfum á að halda í heilbrigðiskerfinu þegar við þurfum á henni að halda,“ segir Óli Björn Kárason alþingismaður í myndbandi á facebook sem birt var í gær. Þar fara hann ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, varaformanni Sjálfstæðisflokksins yfir hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum.

„Um það snýst okkar hugmyndafræði. Að gera ekki svona mikinn greinarmun á milli þess hver veitir þjónustuna og leggja alla áherslu á að þjónustan sé veitt,“ segir Bjarni Benediktsson.

Samvinnuverkefni ríkis og sjálfstætt starfandi

Óli Björn segir einnig: „Að byggja okkar þjónustu upp sem samvinnu verkefni - samstarfsverkefni hins opinbera og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna - lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og svo framvegis.“

„Þetta snýst bara um þetta samspil. Þetta snýst bara um: Hvernig geta einkaaðilar létt undir með kerfinu. Hvernig getum við hjálpast að við að reka sem öflugasta kerfið fyrir fólkið sem býr í þessu landi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Myndbandið má finna hér.